Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Ábendingar um skerta þjónusta við börn vegna efnahagsástandsins

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af stöðu barna í ljósi þess efnahagsástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi.  Fjölskyldur sem eru að upplifa fjárhagslegar þrengingar finna nú vafalaust fyrir streitu og kvíða og það hefur óneitanlega áhrif á líðan barna. Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna og því þarf að halda sérstaklega vel utan um þau á þessum erfiðu tímum og sjá til þess að þau njóti þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst.

Í samfélagsumræðunni er oft minnst á niðurskurð sem kemur niður á þjónustu við fjölskyldurnar í landinu. Til að fá betri yfirsýn yfir ástandið hefur umboðsmaður barna ákveðið að óska eftir ábendingum um niðurskurð sem bitnar með einum eða öðrum hætti á börnum. Því óskar umboðsmaður eftir dæmum um að dregið hafi verið úr þjónustu við börn, hvort sem um er að ræða skólamál, heilbrigðismál, félagslega aðstoð, barnavernd, fjölskyldumál, tómstundamál eða annað sem er hluti af daglegu lífi barna og unglinga.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ofangreint eru vinsamlega beðnir um að senda umboðsmanni tölvupóst á ub@barn.is eða postur@barn.is