Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Á öskudaginn.

Í dag, á öskudaginn, hafa börn í mismunandi búningi komið í heimsókn á skrifstofu umboðsmanns barna. Börnin hafa sungið og fengið verðlaun fyrir. Á Laugaveginum, þar sem skrifstofa umboðsmanns barna er til húsa, hefur mátt sjá nornir, sjóræningja, prinsessur, Köngulóarmanninn, Línu Langsokk og fleiri og fleiri sögufrægar persónur hlaupa á milli búða til að fá að syngja og þiggja smá góðgæti.

En hvaðan kemur þessi öskudagur og af hverju klæða börn sig í grímubúning og hlaupa á milli staða til að fá að syngja? Á Vísindavef Háskóla Íslands má finna áhugaverða umfjöllun um öskudaginn, uppruna hans og hvernig hann hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi. Eins og fram kemur á Vísindavefnum er öskudagur upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Öskudagurinn er upprunalega úr kaþólskum sið og dregur nafn sitt af því að sumstaðar var ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta en askan táknar hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti.

Í Evrópu tíðkuðust, og tíðkast enn þar og víða í heiminum, sérstakar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, miklar útihátíðir og skemmtanir. Föstuinngangur fer saman við vorkomu í suðlægari löndum og þar hafa heiðin hátíðahöld örugglega haft áhrif sem síðan hafa borist til norðlægari landa. Strjálbýli og veðurfar hafa að öllum líkindum komið í veg fyrir að útihátíðahöld næðu fótfestu á Íslandi á þessum árstíma en skemmtunin haldist innan veggja heimilanna, búanna. Gera má ráð fyrir að siðbreytingin hafi haft mikil áhrif á hvernig menn höguðu sér á lönguföstu og við upphaf hennar. Trúarleiðtogar mótmælenda lögðu minni áherslu á föstuna sjálfa og töldu hana koma illa við vinnusemi fólks sem var mikilvæg í augum þeirra.

Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að “marséra” í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með.  Að "marséra” og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar uppfyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.