Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

„Aldrei ofbeldi” sagði Astrid Lindgren. Hver er sjónarhóll barna og ungs fólks? - Málstofa

Miðvikudaginn 14. nóvember nk. mun sænska sendiráðið í samvinnu við félagsráðgjafarskor félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd standa fyrir málstofu í tilefni af 100 ára afmæli Astrid Lindgren. Málstofan verður haldin í stofu 101 Odda kl. 12.15 og verður opnuð af sendiherra Svíþjóðar, Madeleine Ströje-Wilkens.

Erindi flytur dr. Guðrún Kristinsdóttir, prófessor við Kennaraháskóla Íslands.  Guðrún leiðir nú rannsókn um þekkingu barna á ofbeldi á heimilum. Hún hefur í rannsóknum sínum beint sjónarhorninu að félagslegum aðstæðum barna og félagslegri barnavernd.  Vikið verður að þeim málaflokki  í erindinu sem fjallar einkum um þekkingu og skilning barna og ungs fólks á atriðum er snerta líf þeirra, allt frá áhyggjum daglegs lífs til þess að lifa fjarri foreldrum eða búa við ofbeldi á heimili. Titill málstofunnar er sóttur í ræðu sem Astrid Lindgren flutti við móttöku bókmenntaverðlauna í Þýskalandi árið 1978.

Að lokinni málstofu býður sænska sendiráðið þátttakendum til móttöku í Norræna húsinu. Þar verður einnig sýnd myndið  “Till ländet i fjärran” sem fjallar um Astrid Lindgren og réttindi barna. Myndin verður sýnd á sænsku kl. 13.30 og á ensku kl. 14.00

Frekari upplýsingar um Astrid Lindgren er að finna á www.astridlindgrensnas.se