Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þátttaka barna í markaðs- og skoðanakönnunum

Reglulega berast umboðsmanni barna erindi vegna þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Ýmist eru það foreldrar, kennarar eða aðilar sem vilja afla upplýsinganna sem hafa samband og eru skiptar skoðanir á því hvort rétt eða rangt sé að leggja sumar tegundir kannana fyrir börn og þá hvernig.

Í lok árs 2000 sendi fyrrverandi umboðsmaður barna, Þórhildur Líndal, frá sér álitsgerð um þátttöku barna í markaðs- og skoðanakönnunum. Álitsgerðin var birt í ársskýrslu embættisins fyrir árið 2000. Þessi álitsgerð er enn í gildi enda hafa ekki verið sett sérstök lög eða opinberar reglur um framkvæmd slíkra kannana.
 
Í álitsgerðinni beinir umboðsmaður barna þeim tilmælum til fyrirtækja, stofnana og annarra sem gera skoðanakannanir á Íslandi, að þau hafi í heiðri eftirgreint í samskiptum sínum við börn á Íslandi, þ.e. einstaklinga yngri en 18 ára.
 
Hlutverk foreldra:
Kynna þarf fyrir foreldrum-forsjáraðilum, skriflega, með hæfilegum fyrirvara að rannsókn/könnun á tilteknu efni meðal barna sé fyrirhuguð. Stutt lýsing á efni, sem og markmiðum rannsóknar/könnunar, hver sé ábyrgðaraðili og hverjir framkvæmi hana af hálfu ábyrgðaraðila. Gera verður foreldrum-forsjáraðilum grein fyrir því að barni þeirra er ekki skylt að svara einstökum spurningum né heldur yfirhöfuð að taka þátt í rannsókninni/könnuninni. Veita verður foreldrum-forsjáraðilum á einhvern hátt tækifæri á að hafna því að barn þeirra taki þátt í fyrirhugaðri rannsókn/könnun, að höfðu samráði við barnið. Fram þarf að koma að leyfi Tölvunefndar liggi fyrir vegna fyrirhugaðrar rannsóknar/könnunar.
 
Tilgangur og markmið:
Mikilvægt er, áður en rannsókn/könnun fer fram, að útskýra fyrir væntanlegum þátttakendum, hver sé tilgangurinn með rannsókninni/könnuninni og að hvaða markmiði er stefnt með henni. Spurningar þurfa að vera skýrt orðaðar og skiljanlegar börnum.
 
Framkvæmd:
Mjög mikilvægt er, áður en rannsókn/könnun fer fram, að útskýra fyrir væntanlegum þátttakendum, að þeir eigi rétt á að neita að svara einstökum spurningum og yfirhöfuð að taka þátt í rannsókninni/könnuninni. Lýsa ber í stórum dráttum framkvæmd rannsóknar/könnunar fyrir þátttakendum. Þá verður að gera þeim grein fyrir því að fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar verði gætt við framkvæmd hennar. Einnig ber að gera grein fyrir því að frumgögnum verði eytt að rannsókn/könnun lokinni.
Fyrirtæki og stofnanir sem takast á hendur að kanna skoðanir barna eða gera annars konar skyldar rannsóknir þar sem börn eru viðfangsefni, gangast undir mikla ábyrgð. Framkoma þeirra í garð barna verður að einkennast af virðingu fyrir hverjum einstaklingi og skoðunum hans, og jafnframt virðingu fyrir þeim grundvallarsannindum að barn er aldrei einfaldlega rannsóknargagn heldur borgari í lýðræðisríki.