English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára Stúlka | Kynlíf og sambönd

Ólétt 14 ára

Umboðsmaður barna fékk eftirfarandi erindi í gegnum þessa síðu. Ekkert netfang fylgdi og því er  svarið við þessu erindi birt hér. Spurningin hefur verið stytt. 

Hæ. Ég er 14 ára og er semsagt ólett sem var óvart. Ég er búin að segja við mömmu mína að ég ætla að ala upp barnið mitt en mamma segir að hún eigi að gera það þangað til ég verð 17-18. Ég varð svo pirruð, má ég ekki bara ala mitt barna sjálf upp?

Hæ. 

Samkvæmt íslenskum lögum verða einstaklingar lögráða (þ.e. sjálfráða og fjárráða) 18 ára. Það að vera sjálfráða þýðir að þú mátt ráða t.d. hvar þú býrð, vinnur eða ert í skóla. Það að vera fjárráða þýðir að þú mátt ráðstafa peningunum þínum sjálf, þú getur stofnað til skulda og mátt ein ráða yfir sem þú átt. 

Þangað til að barn verður 18 ára fara foreldar með forsjá barna en það þýðir til dæmis að foreldrar ráða því hvar barnið býr, þau annast daglegar þarfir þess eins og að gefa því að borða, kaupa handa því föt, ráða  útivistartíma og margt fleira.

Því fylgir mikil ábyrgð og vinna að eignast barn. Þú berð ekki lengur bara ábyrgð á þér og þínu lífi heldur berð þú ábyrgð á lífi og heilsu lítils einstaklings sem mun þurfa á þér að halda mjög lengi, það er mikil ábyrgð fyrir ungan einstakling eins og þig. Foreldrar verða að setja barnið í forgang og það að eignast og ala upp barn kostar líka heilmikla peninga. Það er því mjög gott fyrir ungan einstakling sem er að fara að eignast barn að fá stuðning og hjálp frá foreldrum, góð ráð frá þeim, stuðning og hjálp, því foreldrar hafa auðvitað reynslu af því að eignast og ala upp barn. Þó svo að stuðningur foreldra sé nauðsynlegur, þá er það auðvitað þannig að sá sem eignast barn ber ábyrgð á uppeldi þess, en ekki amman eða afinn, jafnvel þó svo að barnið og mamma þess eða pabbi búi þar og foreldrið sé ungt.

Á vefnum www.ljósmóðir.is er að finna ýmsar upplýsingar um óléttu og það að eignast barn. Þar er hægt að senda inn spurningar og fá svör við þeim og þar er hægt að finna sérstaka umfjöllun um ungar mæður.

Það er mjög mikilvægt fyrir þig að fara í mæðraskoðun sem fyrst á heilsugæslustöðinni í hverfinu þínu eða þar sem þú býrð. Allar heilsugæslustöðvar á landinu eru með mæðraskoðanir og þangað geta óléttar stelpur leitað til að fá upplýsingar og aðstoð og það er ókeypis. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  Hjá Fæðingarorlofssjóði er hægt að fá upplýsingar um fæðingarstyrk sem hægt er að fá greiddan ef maður er í skóla þegar maður eignast barn. Á vef ríkisskattstjóra  er hægt að fá upplýsingar um barnabætur.

Sums staðar eru foreldrahópar og foreldramorgnar fyrir unga foreldra sem kirkjan býður upp á, það væri gott fyrir þig að kynna þér það, það getur verið gott að kynnast stelpum og strákum sem eru að ganga í gegnum það sama og fá stuðning og félagsskap.

Það væri örugglega gott fyrir þig að lesa um réttindi, ábyrgð og skyldur foreldra og barna. Hér eru upplýsingar um forsjá, umgengni, meðlag o.fl. og hér eru upplýsingar um öryggi og slysavarnir barna. 

Ef það er eitthvað sem við getum útskýrt betur fyrir þér eða gefið þér upplýsingar um þá er þér velkomið að senda okkur aftur skilaboð. Þér er líka velkomið að hringja hingað á skrifstofuna í símanúmer 800 5999, en það kostar ekkert að hringja í það númer.

 

Gangi þér vel og við sendum þér bestu kveðjur frá skrifstofu umboðsmanns barna.