English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| ára | Vímuefni

Kærasti með vímuefnavanda - hvernig get ég hjálpað?

Umboðsmaður barna fékk fyrirspurn frá stúlku vegna kærasta síns sem er fíkill. Henni þykir vænt um hann en vill ekki verið með honum ef hann er að nota. Hún spyr hvað hún getur gert?

Takk fyrir póstinn. 

Vonandi vill kærasti þinn leita sér hjálpar og ná tökum á þessum vanda. Nú kemur ekki fram hvað hann er gamall. Ef hann er eldri en 18 ára væri mjög gott fyrir hann að panta viðtal hjá félagsráðgjafa hjá félagsþjónustunni í sveitarfélaginu eða hjá þjónustumiðstöð ef hann býr í Reykjavík til að ræða stöðuna og hvaða aðstoð hann getur fengið. Hann gæti sömuleiðis snúið sér til heilsugæslunnar þar sem hann býr og fengið ráðgjöf. Hann getur einnig haft samband við SÁÁ (Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann) í síma 530-7600 og leitað sér upplýsinga en það geta líka ættingjar og vinir gert sem hafa áhyggjur af einhverjum sem þeim þykir vænt um og er í neyslu. Hér er að finna upplýsingar um meðferðarúrræði: https://saa.is/medferd/ en hér má sömuleiðis finna ýmsar gagnlegar upplýsingar: https://forvarnir.is/ og  https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/afengisvarnir-vimuvarnir/ Á vefnum www.heilsuvera.is er einnig hægt að lesa sér til um vímuefnavanda en þar er líka hægt að eiga netspjall við hjúkrunarfræðing og svo er síðan www.attavitinn.is með gagnlegar upplýsingar og þar er hægt að senda inn fyrirspurn, algjörlega nafnlaust.

Ef kærasti þinn er hins vegar yngri en 18 ára þá getur barnaverndin aðstoðað hann. Það er hlutverk barnaverndar að tryggja að börn og ungmenni sem búa við slæmar aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu með áhættuhegðun eins og t.d. vímuefnaneyslu, fái nauðsynlega aðstoð. Það væri því mjög gott ef barnaverndin, þar sem þið búið, fái upplýsingar um að hann sé í þessum vanda, þannig að það sé hægt að veita honum nauðsynlega aðstoð. Barnaverndin gæti veitt honum aðstoð við að fá vímuefnaráðgjöf, sálfræðiaðstoð eða annað sem hentar honum, ef vímuefnavandinn er ekki mjög alvarlegur, en fyrir börn sem eru með alvarlegan vímuefnavanda er barnaverndin með sérhæfða meðferð sömuleiðis. Ef kærasti þinn er ekki reiðubúinn að leita sér sjálfur aðstoðar þá getur þú tilkynnt um aðstæður hans til barnaverndar og beðið um aðstoð fyrir hann, þú getur óskað eftir því að nafnið þitt komi ekki fram. 

Ef við getum eitthvað leiðbeint þér frekar eða veitt þér aðrar upplýsingar þá hafðu endilega samband við okkur. Þú getur sent okkur fyrirspurn á facebook eða hringt í okkur í gjaldfrjálsa símanúmerið okkar 800 5999.

Gangi þér vel og við sendum þér góðar kveðjur frá skrifstofu umboðsmanns barna.

Flokkur: Vímuefni