English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára Strákur | Skóli

Má kennari banna nemanda að fara á klósettið?

Má kennarinn banna manni að fara á klósettið?

Sæll.

Umboðsmaður barna á erfitt með að sjá að það sé nemendum fyrir bestu að banna þeim að fara á klósettið því mikilvægt er að börnum líði vel í skólanum.

Vissulega er best að nemendur noti frímínúturnar til að fara á klósettið en ef þeir þurfa að fara á klósettið í kennslustund finnst umboðsmanni eðlilegt að þeir megi það. Ef nemandi sem þarf að nota klósettið fær það ekki er hætta á að honum líði illa í kennslustund og nái ekki að fylgjast vel með. Ef kennari tekur eftir óvenjulega tíðum klósettferðum nemanda er að sjálfsögðu eðlilegt að bregðast við, til dæmis með því að ræða við foreldra, enda getur slíkt verið merki um veikindi eða andlega vanlíðan.

Ef nemendum finnast reglur um klósettferðir ósanngjarnar er eðlilegt að þeir óski eftir að ræða þær í skólanum og fá þær endurskoðaðar. Til dæmis er hægt að athuga hvort nemendafélagið (eða stjórn þess) vilji taka þetta mál upp.

Einnig geta foreldrar rætt málið sín á milli en formlega leiðin sem foreldrar hafa er í gegn um foreldrafélagið.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli