English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| ára Vil ekki segja | Fjölskylda, Heilsa og líðan

Hvernig er hægt að líða betur heima?

Umboðsmaður barna fékk spurningu um hvernig manni getur liðið betur heima hjá sér án þess að tala við foreldra um það. Ekkert netfang fylgdi með spurningunni þannig að svarið er birt hér á heimasíðunni.

Hæ hæ

Það er leitt að heyra að þér líði ekki nógu vel heima hjá þér. Allir eiga rétt á því að líða vel heima hjá sé og heimilið á að vera staður þar sem allir koma vel fram við hvorn annan og af virðingu.

Foreldar fara með forsjá barna sinna til 18 ára aldurs sem þýðir að þau eiga að sjá til þess að börnunum sínum líði vel og og eiga að sýna þeim umhyggju og virðingu. Foreldrar eiga líka að sjá til þess að börnin fái næringarríkan mat að borða og föt og aðrar nauðsynjar ásamt því að vernda þau gegn ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar vilja því vita ef börnunum þeirra líður illa heima hjá sér svo hægt sé að laga það.

Börn eiga líka alltaf rétt á að segja hvað þeim finnst og foreldrar eiga að hlusta á börnin sín og taka tillit til vilja barnanna. Þú segir að þér vilji líða betur heima hjá þér án þess að tala við foreldra þína. Ef þér líður illa út af einhverju sem foreldrar þínir eru að gera eða segja þá væri samt best að byrja á því að ræða við þau um það og segja þeim hvernig þér líður. Þú getur til dæmis talað við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir áður en þú talar við foreldra þína ef þér finnst erfitt að tala ein/einn við foreldra þína. Það gæti til dæmis verið amma, afi, frænka, frændi, kennari eða einhver annar fullorðinn sem þú treystir. Sá sem þú talar við gæti þá hjálpað þér við að tala við foreldra þína. 

Í bréfinu þínu kemur ekki fram af hverju þér líður ekki nógu vel heima hjá þér en það er mikilvægt að vita það er hlutverk barnaverndar að grípa inn í ef börn búa ekki við nógu góðar aðstæður og veita börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynlegan stuðning eða ráðgjöf svo börnum líði vel á heimilinu. Barnaverndin getur þá hjálpað barninu og fjölskyldunni þannig að börn sem búa við slæmar aðstæður fái þá aðstoð sem þau þurfa. Barnaverndarnefnd og starfsmenn hennar eiga alltaf að taka þær ákvarðanir sem eru taldar börnum fyrir bestu og sýna þeim sérstaka nærgætni og trúnað. Börn eiga að geta treyst barnaverndinni og leitað til hennar ef þeim líður illa heima hjá sér eða þurfa á aðstoð að halda.

Þú getur sjálf/sjálfur haft samband við barnaverndina ef þér finnst þú búa við slæmar aðstæður eða fái slæma meðferð, eiga í erfiðleikum eða hafa orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða öðrum afbrotum. Auðveldasta leiðin til þess að fá samband við barnaverndina er að hringja í síma 112 (hvort sem það er neyðartilvik eða ekki) og segja starfsfólki neyðarlínunnar frá aðstæðum þínum.

Hér er líka hægt að lesa meira um barnaverndina og hennar hlutverk: /boern-og-unglingar/rettindi-og-radgjoef/barnavernd/

Hérna kemur svo listi yfir aðila sem þú getur leitað til, til þess að fá upplýsingar, ráðgjöf eða aðstoð: 

  • Grunnskólanemar geta leitað til umsjónarkennarans síns. Umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur við að leysa úr persónulegum málum sem og námslegum. Þeir geta líka vísað nemendum á fagfólk innan skólans, eins og t.d. skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Nemendur geta að sjálfsögðu líka leitað sjálfir til hjúkrunarfræðingsins eða námsráðgjafans. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa.
  • Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málin við það. 
  • Framhaldsskólanemar geta leitað til námsráðgjafans í skólanum sínum. Einnig hafa flestir framhaldsskólanemar umsjónarkennara sem þeir geta leitað til.
  • Sálfræðingar starfa við flest alla grunnskóla og hægt er að leita til þeirra. Þá eru margir framhaldsskóla komnir með sálfræðing sem nemar geta leitað til og fengið tíma hjá. 
  • Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál — enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn „þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
  • Krakkar geta leitað til heilsugæslustöðvanna með alls konar spurningar og vandamál sem tengjast heilsu og líðan. Hérna á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær.  
  • Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á sveitarfélagið þitt kemst þú inn á heimasíðu þess. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna. 
  • 1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér líður illa eða finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.

 

Ef þú ert með fleiri spurningar þá mátt þú alltaf hafa samband við okkur aftur. Það getur þú gert með því að senda okkur aftur fyrirspurn á tölvupóstinn ub@barn.is, fylla út formið hér að neðan þar sem stendur „Getum við aðstoðað?“ eða hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer).

 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna.