English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára Vil ekki segja | Fjölskylda, Heilsa og líðan

Er beitt/ur líkamlegu og andlegu ofbeldi heima

Umboðsmaður barna fékk erindi í gegnum þessa síðu þar spyrjandinn lýsir að hann hafi orðið fyrir bæði líkamlegu og nú andlegu ofbeldi í fjölskyldunni. 

Ekkert netfang fylgdi og því er  svarið við þessu erindi birt hér á þessari síðu. 

Takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna og það er frábært að þú sért að leita að aðstoð.

Það er afskaplega leitt að heyra hvað þú hefur þurft að upplifa og ert enn að upplifa. Það er að sjálfsögðu ekki í lagi að börn séu beitt ofbeldi, það er aldrei undir nokkrum kringumstæðum í lagi, en það er rétt hjá þér að það sem þú ert að lýsa er ofbeldi. Heimili okkar er staður þar sem okkur á öllum að líða vel, þar sem við fáum að vera við sjálf og þar sem hlustað er á okkur þegar við segjum frá því hvernig okkur líður. 

Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun og allir sem eru að ala upp börn, foreldrar eða aðrir, eiga að sýna þeim virðingu og umhyggju og eiga að sinna þörfum barna sem eru auðvitað mismunandi.

Það er mjög mikilvægt fyrir þig að leita til einhvers sem þú treystir og segja frá því hvernig þú hefur það heima hjá þér, gott væri ef það væri einhver fullorðinn. Þú segir að fjölskylduvinur hafi séð þig verða fyrir ofbeldi og hafi sagt frá því í skólanum, getur þú kannski leitað til þessa fjölskylduvinar og sagt honum að þér líði illa heima og þú viljir fá hjálp ? Kannski ertu með góðan umsjónarkennara sem þú treystir, eða er kannski námsráðgjafi í skólanum eða annar starfsmaður sem þér finnst þú geta leitað til. Eða kannski góð amma, afi, frændi, frænka, foreldri vinar, nágranni eða einhver annar sem þú treystir. Ef það er einhver sem þú treystir þá gæti sá einstaklingur kannski aðstoðað þig við að ræða við foreldra þína þannig að þú getir fengið aðstoð við að segja þeim frá því hvernig þér líður og hvaða áhrif það hefur á þig þegar svona er komið fram við þig.

Þú hefur vonandi heyrt um Barnasáttmálann, en það er samningur sem Ísland hefur skrifað undir og það þýðir að hér á landi eiga börn réttindi sem allir þurfa að virða. Hér á heimasíðunni okkar getur þú lesið og skoðað myndir um Barnasáttmálann og réttindi þín, sérstaklega viljum við benda þér á mynd nr. 2.  

Hér á Íslandi erum við með eitthvað sem heitir barnavernd, en það eru sérfræðingar í því að hjálpa foreldrum við að ala upp börnin sín og aðstoðar börn sem búa við erfiðar aðstæður heima hjá sér. Það er margt sem barnavernd getur gert til að aðstoða foreldra sem kannski vita ekki alveg hverju börnin þeirra þurfa á að halda, eða hvernig á að ala börn upp án þess að beita ofbeldi. Foreldrar geta fengið ráðgjöf og aðstoð við þessa hluti og stundum þurfa börn á aðstoð að halda til þess að tala við foreldra sína um hvernig þeim líður eða við að jafna sig á einhverju sem maður hefur upplifað og manni finnst erfitt. Ef þú treystir þér til getur þú sjálfur haft samband við barnavernd og óskað eftir aðstoð, eða fengið einhvern til þess að hjálpa þér við það. Þú getur hringt í 112 og beðið um samband við barnavernd þar sem þú býrð og fengið að ræða við starfsmann um aðstæður þínar heima og hvernig þér líður.

Ef við getum eitthvað aðstoðað þig meira þá máttu endilega senda okkur tölvupóst á ub@barn.is, eða senda okkur önnur skilaboð í gegnum heimasíðuna okkar barn.is. Þú getur líka sent okkur skilaboð á facebook eða hringt í gjaldfrjálsa númerið okkar 800-5999 milli 9 og 15 alla virka daga. 

Gangi þér sem allra best og við sendum þér góðar kveðjur frá umboðsmanni barna.