English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára Stelpa | Fjölskylda

Mamma vill setja app í símann til að fylgjast með

Mamma mín vill setja eihvað app í síman minn svo hún geti stjórnað frá sínum síma hvenær ég má vera í simanum. Ég er ekki oft í simanum því ég hef ekki mikin tíma til þess. Þannig ég spyr má hún gera það?

Foreldrar ber ábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna og er því almennt gengið út frá því að þeir taki stærri ákvarðanir fyrir börn sín. Eftir því sem börn eldast og þroskast fá þau þó aukinn rétt til þess að vera höfð með í ráðum þegar kemur að því að taka ákvarðanir þangað til að lokum er þeim veittur réttur til þess að taka þær að fullu.

Þegar tekin er ákvörðun sem varðar þig átt þú rétt á því að vera með í ráðum og koma sjónarmiðum þínum á framfæri og hafa áhrif á niðurstöðuna. Eftir því sem þú eldist og þroskast ættu skoðanir þínar að fá aukið vægi og þar sem þú ert 14 ára þá ættu skoðanir þínar að skipta miklu máli fyrir niðurstöðuna. Hins vegar bera foreldrar þínir ábyrgð á velferð þinni og ef mamma þín telur þig vera meira í símanum en eðlilegt er þá getur hún sett ákveðnar reglur um símanotkunina þína með hagsmuni þína að leiðarljósi. Þá sérstaklega ef símanotkun er ef til vill að hafa áhrif á svefn eða aðra mikilvæga þætti sem skipta máli til að þroskast. Þegar foreldrar telja þörf á að setja slíkar reglur er best að ræða þetta í sameiningu og komast að samkomulagi um hvernig gott er að útfæra reglurnar.

Í þessu tilfelli væri því best ef þið gætuð komist að samkomulagi og sett í sameiningu reglur um símanotkunina sem þið báðar eruð sáttar við þannig að þú fáir frelsi til þess að eiga í samskiptum við félaga og vini en án þess að síma- og netnotkun þín sé óhófleg. Það gæti verið gagnlegt fyrir þig og mömmu þína að skoða í sameiningu heimasíðuna www.saft.is, en þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um netnotkun og samfélagsmiðla. Eins er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar á heimasíðu Heimili og skóla http://www.heimiliogskoli.is/

Þér er velkomið að hafa samband aftur með því að senda skilaboð eða með því að hringja í skrifstofu umboðsmanns barna í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer).

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda