English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| ára Strákur | Fjölskylda, Heilsa og líðan

Mega foreldrar ráða hvenær ég fer að sofa?

Mega foreldrar ráða hvenær maður fer að sofa?

Stutta svarið er já, foreldrar þínir mega ráða hvenær börnin þeirra fara að sofa þannig að tryggt sé að börn fái nægan svefn.

Svefn er öllum mönnum og dýrum nauðsynlegur og góður svefn hjálpar til við að gera okkur kleift að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Það er talið að yngstu skólabörnin þurfi í kringum 9 tíma svefn á nóttunni en þegar komið er á unglingsár þá eykst þessi þörf um u.þ.b. klukkustund á nóttu. Það er vegna þess aukna álags sem fylgir gelgjuskeiðinu. Það er hins vegar oftar þannig að stór hluti unglinga styttir þann svefntímann sinn. Þá hafa ýmsar rannsóknir sýnt fram á að gæði og lengd nætursvefns hefur áhrif á námsgetu og minni. Þá er svefninn nauðsynlegur fyrir ónæmiskerfið og fyrir vöxt og þroska unglings.

Á vefsíðu landlæknis kemur einnig fram að þeir unglingar sem hafa góðar svefnvenjur og sofa nóg eru hamingjusamari, taka frekar ábyrgð á heilsunni, borða hollari mat, eru hæfari að takast á við streitu og stunda frekar reglulega hreyfingu en þeir unglingar sem sofa ekki nóg.

Ef þér finnst svefntíminn sem foreldrar þínir eru að setja þér ósanngjarn eða óeðlilegur þá ættir þú að tala við þau um það og láta þau vita af því hvernig þér líður. Börn eiga rétt á að segja sína skoðum í málum sem varða þau og eftir því sem þú verður eldri þeim mun meira tillit eiga foreldrar þínir að taka til skoðana þinna.

Foreldrar þínir fara með forsjá yfir þér þar til þú verður 18 ára gamall og það merkir meðal annars að þeim ber að tryggja bæði efnahagslega og andlega velferð þína. Það þýðir að þeim ber að sjá til þess að börn sín fái nægan svefn svo þeim líði t.d. vel í skólanum og hafi næga orku til að læra og stunda tómstundir. Þau geta því sett ákveðnar reglur til að geta sinnt því hlutverki en þú ættir að fá eitthvað um þessar reglur að segja eftir því sem þú eldist og þroskast.

Vonandi svarar þetta þér einhverju.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna