English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára ára Stelpa | Kynlíf og sambönd

15 og 23 ára saman?

Hæ. Ég er 15 ára. Er ólöglegt að vera með strák sem er 23 ára ?

 

Ofangreind spurning barst til umboðsmanns barna. Ekkert netfang fylgdi með og því birtist svarið hér.

Komdu sæl

Í almennum hegningarlögum segir að hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæta refsingu, sem getur orðið 4 ára fangelsi.  Þessu ákvæði er ætlað að vernda unglinga fyrir fólki sem vill notfæra sér þroska- og reynsluleysi þeirra.

Þetta segir í lögunum, en það er síðan annað mál, að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega. 

Flestir myndu álíta að talsverður þroska- og reynslumunur væri á 15 ára ungling og manni sem er 8 árum eldri, eins og þú segir í erindi þínu.  Í raun myndi mörgum eflaust þykja óeðlilegt að maður á þrítugsaldri sýni 15 ára barni kynferðislegan áhuga. Því er alltaf spurning hvort fyrrnefnd grein almennra hegningarlaga gæti átt við aðstæður þínar.  Markmið laganna er ekki að hafa afskipti af einkalífi fólks svo framarlega að ekki sé um að ræða þvingun, nauðung eða misnotkun á trausti eða sakleysi þeirra sem ekki geta varið sig.  Lögin eru sett til að vernda börn og unglinga gegn misnotkun þeirra sem vilja notfæra sér reynsluleysi þeirra og ungan aldur.

 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna