English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| ára Vil ekki segja | Fjölskylda, Heilsa og líðan

Foreldrar öskra og hóta

Mamma og pabbi eru alltaf að öskra á mig og hóta mér [...]  mér finnst ég aldrei vera nógu góð í neinu því þau brjóta mig svo mikið niður. 

Umboðsmanni barst fyrirspurn frá barni þar sem það lýsir því hvernig foreldrar öskra og hóta barninu. Einnig nefndi barnið að foreldrar hefðu slegið sig utanundir. Ekki var netfang skráð með fyrirspurninni og er því svarið birt hér á heimasíðunni. Umboðsmaður afsakar hversu seint svarið birtist en því miður fór pósturinn í ruslhólfið hjá okkur.

Það er afar leitt að heyra hvernig foreldrar þínir koma fram við þig. Líkamlegt og andlegt ofbeldi  gagnvart börnum er bannað samkvæmt lögum og það er aldrei réttlætanlegt að slá barn. Dæmi um líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegt afl er notað til að meiða einhvern eins og að slá utanundir, kýla, hrinda eða nota hluti til að meiða viðkomandi. Andlegt ofbeldi er þegar orð, hegðun eða tjáning lætur öðrum líða illa eins og til dæmis að öskra, hóta, hræða, ógna eða niðurlægja einhvern með hegðun eða orðum.

Börn undir 18 ára aldri eiga rétt á sérstakri vernd gegn ofbeldi. Foreldrar barna eiga sérstaklega að vernda það gegn ofbeldi og börn eiga líka rétt á öryggi, vernd og umönnun. Þess vegna er mjög mikilvægt að þú látir einhvern fullorðinn vita hvernig ástandið er heima hjá þér. Þú gætir til dæmis leitað til umsjónarkennarans þíns í skólanum ef þú ert í grunnskóla, skólahjúkrunarfræðinginn eða námsráðgjafann. Einnig getur þú talað við starfsfólk í félagsmiðstöðinni þinni en það er líka bundið trúnaði.

Þú getur líka haft samband beint við barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi sem þú átt heima í. Hér (http://www.bvs.is/almenningur/barnaverndarnefndir/) er listi yfir allar barnaverndarnefndir á Íslandi. Þú mátt líka hringja í okkur í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer) og við getum haft samband við barnaverndarnefnd fyrir þig.