English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára ára Vil ekki segja | Fjölskylda, Ýmislegt

Vill ekki vinna

Mega foreldrar segja bara að ef ég vinn ekki þá fæ ég enga peninga svo ég get keypt mér eitthvað?

Hæ.

Foreldrar bera forsjárskyldu yfir þér þar til þú ert orðin 18 ára. Það þýðir meðal annars að foreldrum þínum ber að tryggja að þú hafir fullnægjandi húsaskjól, fæði og föt og að þú búir almennt við þroskvænleg skilyrði. Foreldrar þínir eiga líka til dæmis að greiða fyrir ritföng og fleira sem tengist skólagöngu þinni. Foreldrum ber að fylgjast með því hvernig börnum sínum gengur í daglega lífinu og hvernig þeim líður. Foreldrar eiga að hjálpa börnunum og leiðbeina þegar þörf er á.

Foreldrar og börn eiga að sýna hvort öðru virðingu og börn eiga að fara eftir reglum sem settar eru á heimilinu. Börn eiga rétt á að fá að segja sína skoðun á málum sem varða þau og svo ber foreldrum að taka tillit til skoðana þeirra eftir aldri og þroska. Því eldri sem börn verða þeim mun meira vægi eiga skoðanir þeirra að fá.  Ef foreldrar þínir vilja að þú vinnir til að fá vasapening þá er það eitthvað sem þið ættuð að tala saman um og ákveða í sameiningu. Almennt er litið á nám í grunnskóla sem fulla vinnu og talið æskilegt að börn noti þær stundir sem sem þau eig lausar til hvíldar og tómstunda. Er meginreglan því sú að ekki megi ráða börn yngri en 15 ára til vinnu. Það er þó heimilt að ráða 13 ára barn í léttari störf í takmarkaðan stundafjölda, til dæmis léttari þjónustustörf, garðyrkjustörf, blaðaburð eða önnur hliðstæð störf.

Hér er nánar hægt að lesa um vinnu barna og unglinga.

Þess ber að geta að börn ráða sjálf yfir öllum þeim pening sem þau vinna sér inn. Gott væri að tala við foreldra þína og segja þeim hvað það er sem þú villt kaupa þér og þið gætuð ef til vill fundið leið sem allir eru sáttir við án þess að þú farir og fáir þér vinnu til að hafa efni á þeim. Sem dæmi væri hægt að byrja á því að þú vinnir einhver störf á heimilinu og fáir greitt fyrir.

Ef þú hefur fleiri spurningar þá máttu endilega hafa samband við okkur í tölvupósti eða í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer)

 

Bestu kveðjur frá umboðsmanni barna