English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára Strákur | Skóli

Í framhaldsskóla í Reykjavík, býr ekki á höfuðborgarsvæðinu

Ég er 16 ára og er að​ byrja í framhaldsskóla í Reykjavík í haust. Ég bý ekki á höfuðborgarsvæðinu svo ég þyrfti alltaf að taka strætó á milli, en það er tímafrekt og kostnaðarsamt svo ég var að velta fyrir mér hvort ég gæti búið þar. Eru einhverjir möguleikar í boði fyrir mig til að flytja sjálfur?

Komdu sæll.

Það er ef til vill best fyrir þig að ræða um þetta við foreldra þína. Foreldrar fara með forsjá barna fram til 18 ára aldurs og ráða því persónulegum högum þeirra, eins og t.d. búsetu.

Umboðsmanni barna er ekki kunnugt um neina framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á heimavist. Þeir sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu geta hins vegar sótt um jöfnunarstyrk hjá LÍN. Skilyrði fyrir slíkum styrk er að lögheimili sé ekki í nágrenni við skóla og að námið verði að vera að lágmarki eins árs skipulagt nám við skóla sem fellur undir lög um framhaldsskóla. Nánari upplýsingar um jöfnunarstyrk er að finna hér.

Þá geta framhaldsskólanemar sótt um dvalarstyrk skv. 4. gr. reglugerðar um námsstyrki ef þeir uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Nemandi stundi reglubundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, sbr. a-lið 2. gr. 
  2. Nemandi geti ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu, sbr. skilgreiningu í b-lið 2. gr. 
  3.  Nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu vegna námsins. Heimilt er að veita dvalarstyrk þótt fjarlægð skv. 1. málsl. sé styttri en 30 km, ef samgöngur til og frá skóla eru nemanda sérstaklega erfiðar m.a. með tilliti til veðráttu og ástands vega eða vegna skorts á almenningssamgöngum.

Nánar er hægt að lesa um styrki varðandi framhaldsskóla hér á vefsíðu umboðsmanns barna.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna.

Flokkur: Skóli