English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára Stelpa | Kynlíf og sambönd

Mega 14 og 15 ára sofa saman?

Halló. Var að spá hvort 15 og 14 ára mega sofa saman.

Hæ hæ

Strangt til tekið er það refsivert ef fimmtán ára einstaklingur sefur hjá einstaklingi sem er ekki orðin fimmtán ára.

Það segir hvergi beinlínis í íslenskum lögum að unglingar þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til að mega stunda kynlíf. Hins vegar er að finna ákvæði í 202. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir að það sé refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þetta lagaákvæði miðar fyrst og fremst að því að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun eldra fólks, sem vill nýta sér þroska- og reynsluleysi barna. Þar sem að einstaklingur verður ekki sakhæfur fyrr en hann hefur náð 15 ára aldri er ekki hægt að refsa 14 ára einstaklingi fyrir að stunda kynlíf með jafnaldra.

Þó svo að lögin kveði á um þetta er mikilvægt að hafa í huga að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega. Mikilvægt er að hafa í huga að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt til að ákveða hvað er gert við líkama þeirra. Auk þess er mjög mikilvægt að sýna ábyrgð, lesa sér til um getnaðarvarnir og kynsjúkdóma og hafa í huga að kynlíf með öðrum getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan.

Umboðsmaður barna vill auk þess benda þér á síðu Ástráðs og bæklinginn Kynlíf - unglingar sem er á vefsíðu Landlæknis. Einnig er að finna margar upplýsingar hér.

Umboðsmaður barna telur að 14 ára einstaklingar ættu almennt ekki að vera að stunda kynlíf og vill hvetja þig að vera ekki að flýta þér um of. Þú hefur nægan tíma til þess að spá í þessa hluti síðar.

Ef þú ert með fleiri spurningar er þér alltaf velkomið að hafa samband aftur með því að senda okkur tölvupóst á ub@barn.is eða hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).