English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára Stelpa | Skóli

Leita að vinnu með skóla og vill æfa eitthvað

Eg er að leita mer að vinnu með skola i Keflavík eg varð 14 i mai hvað ma eg vinna leingi og hvar get eg unnið? & eg er kannski lika að leita að ehv að æfa i Keflavík með vinnu og skola ? Hvar get eg fengið vinnu og æfingar ? Takk takk

Komdu sæl

Varðandi vinnu barna og unglinga þá er hér gamalt svar sem á vel við þína fyrirspurn.

Almennt er litið á nám í grunnskóla sem fulla vinnu og talið æskilegt að börn noti þær stundir sem sem þau eig lausar til hvíldar og tómstunda. Er meginreglan því sú að ekki megi ráða börn yngri en 15 ára til vinnu. Þó má víkja frá þeirri reglu í eftirfarandi tilvikum: 

• Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa. Dæmi um létt störf eru t.d. létt skrifstofustörf, létt fiskvinnslustörf án véla, sala dagblaða, létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa. 
• Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur. 
• Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.

Þú gætir prófað að sækja um létt störf sem að henta þér á borð við þau sem nefnd eru hérna að ofan og jafnvel talað um þetta við foreldra þína og kannað hvort þeir eða einhver annar ættingi sé tilbúinn til að greiða þér fyrir létt störf á heimilinu eða í garðinum. Umboðsmaður barna leggur þó áherslu á að þú sinnir skólanum og hafir nægan frítíma til þess njóta þess að gera það sem þér finnst skemmtilegt. Það er nægur tími til þess að vinna í framtíðinni.

Þú getur lesið meira um vinnu barna og unglinga hér á síðu umboðsmanns barna. Þar er meðal annars hægt að fá upplýsingar um vinnutíma barna.

Þú segist líka vera að leita þér að einhverju til að æfa með vinnu og skóla. Ef þú átt við íþróttir þá er eflaust hægt að finna eitthvað sem hæfir hverjum og einum t.d. hjá íþróttafélaginu Keflavík eða Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar. Þá er einnig annað tómstundastarf í boði t.d. skátarnir sem eru með mjög virkt starf fyrir börn og unglinga. Starfsfólk félagsmiðstöðva eða námsráðgjafinn í skólanum geta líka aðstoðað þig við að finna hvað er í boði í þínu sveitarfélagi.

Bestu kveðjur frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli