English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára strákur | Fjölskylda

Er neyddur til að vinna

Mega foreldrar neyða mann til að vinna? Foreldrar mínir vekja mig kl 8 um helgar og seigja mér að koma og vinna og þau hlusta ekki á mig um að mig langar ekki til þess

Hæ hæ

Í spurningu þinni til umboðsmanns barna segir þú frá því að foreldrar þínir veki þig kl. 8 um helgar og segi þér að vinna. Þú spyrð hvort foreldrar megi neyða börn til þess að vinna.

Í stuttu máli er svarið nei, foreldrar mega ekki neyða börn til þess að vinna. Í raun má ekki þvinga neinn til þess að vinna –  hvorki börn né fullorðna. Nám í grunnskóla er talin full vinna og því eiga börn sjálf að ráða því hvort þau vilja vinna með skóla eða ekki. Auk þess er almennt litið svo á að 14 ára börn séu nokkuð ung til þess að vinna með skóla, en lög miða almennt við það að börn geti ekki byrjað að vinna fyrr en við 15 ára aldur. Þó mega 13 og 14 ára börn vinna ákveðin létt störf í takmarkaðan tíma, en þú getur lesið meira um það hér á vef umboðsmanns barna.

Þó að foreldrar megi ekki þvinga börn til þess að vinna geta þeir sett ákveðnar reglur á heimilinu. Er því til dæmis eðlilegt að allir á heimilinu hjálpist að við að sinna heimilinu, s.s. að taka til. Yfirleitt er þó best að öll fjölskyldan ræði hvaða reglur eiga að gilda á heimilinu og reyni að komast að samkomulagi sem allir eru sáttir við.

Ef þú vilt ræða málið nánar eða ert með fleiri spurningar skaltu endilega hafa samband aftur. Þú getur svarað þessum pósti eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).

Því miður tókst ekki að senda þér persónulegt svar þar sem netfangið sem þú gafst upp virkaði ekki.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna.  

Flokkur: Fjölskylda