English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára strákur | Skóli

Af hverju þarf að læra samfélagsfræði?

Afh þarf maður að læra samfélagsfræði ? Ekki eins og ég vil vita eh um freðmýri og barrskóga. Er það skyldugreiðslur og afh?

Hæ hæ

Menntun er talin mjög mikilvæg fyrir öll börn og þess vegna er skylda fyrir börn á aldrinum 6 til 16 ára að vera í skóla. Samkvæmt íslenskum lögum þurfa þau börn sem eru í skóla að læra það sem kemur fram í svokallaðri aðalnámskrá. Þess vegna er skylda að læra ýmis fög - til dæmis samfélagsfræði.

Menntun felur í sér mjög mikilvæg mannréttindi og er nauðsynleg leið til að fá öðrum mannréttindum framgengt. Menntun gerir mörgum kleift að öðlast tækifæri til að taka fullan þátt í samfélaginu og þannig vinna sig til dæmis upp úr erfiðum félagslegum aðstæðum eða fátækt. Þá hefur menntun verið grundvallaratriði í réttindabaráttu kvenna, við verndun barna gegn barnavinnu og kynferðislegri misnotkun. Menntun er einnig mikilvæg til að efla mannréttindi og lýðræði, til að stuðla að umhverfisvernd og margt fleira. Ef við lítum til lengri tíma þá er menntun líklega ein besta fjárfesting sem hægt er að gera.

Þetta segir í Aðalnámskrá grunnskóla um samfélagsgreinar:

Samfélagsgreinar eru greinar sem fjalla um samfélög og menningu á upplýsandi og gagnrýninn hátt. Þær eiga sér grundvöll í þeirri skyldu hvers samfélags að fræða nemendur um gildi eins og jafnrétti, lýðræði, umhyggju og virðingu og þýðingu þessara gilda fyrir farsælt líf. Slíka menntun öðlast ungt fólk vissulega einnig á öðrum námssviðum og annars staðar en í skólakerfinu, enda eru fyrirmyndir barna margar. Samfélagsgreinum er ætlað að hjálpa nemendum að bregðast við áskorunum úr umhverfinu og nærsamfélaginu í krafti skynsemi sinnar og gera þeim grein fyrir eigin ábyrgð á þeim leiðum, sem hver og einn velur sér, til þess að fóta sig í félagi við annað fólk og umhverfi.

Samfélagsfræðin felur því í sér mjög vítt svið og nær til fleiri námsgreina og efnisþátta en hún gerði áður. Hún felur í sér að þroska nemendur til að eiga í innihaldsríkum samskiptum við aðra og undirbúa þá til að skilja umhverfið sem við búum í, samfélagið, söguna og þá menningu sem við fæðumst í. Þó svo að það geti verið gott fyrir okkur sem búum hér á norðurhveli jarðar að þekkja til freðmýrar og barrskóga þá snýst samfélagsfræði um margt annað en það. Samfélagsfræði eykur skilning okkar á ýmsum málum sem varðar okkar samfélag eins og t.d. á umhverfi, auðlindum, menningu og sögu.

Vonandi svarar þetta spurningu þinni á einhvern hátt. Gangi þér sem allra best í skólanum. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli