English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára strákur | Fjölskylda

Hvenær ræð ég hvar ég á heima?

Hvenær má ég ráða hvar ég á heima ???

Komdu sæll

Foreldrar fara með forsjá barna sinna til 18 ára aldurs. Það þýðir að foreldrar ráða því yfirleitt hvar börnin þeirra eiga heima.

Ef foreldrar búa ekki saman þarf að taka ákvörðun hvar barnið á að búa. Áður en ákvörðun um hvar barn á að eiga heima er tekin á barnið sjálft alltaf rétt á að segja sína skoðun og það á að taka mikið tillit til vilja barnsins.

Þar sem þú ert orðinn 12 ára átt þú að ráða miklu um það hvar þú átt heima, ef foreldrar þínir búa ekki saman. Fyrsta skrefið er að ræða við foreldra þína og segja þeim hvernig þér líður og hvað þú vilt. Það gæti t.d. verið gott að fá einhvern annan fullorðinn sem þú treystir til þess að aðstoða þig við að tala við foreldra þína, t.d. ömmu, afa, frænku eða frænda.

Ef þér líður illa heima hjá þér er mikilvægt að þú látir einhvern fullorðinn vita.  Ef það er ekki nógu vel hugsað um þig eða einhver er vondur við þig á heimilinu getur þú líka haft samband við barnavernd, en hægt er að lesa meira um barnaverndina hér. Það er hægt að hafa samband í 112 og biðja um samband við barnavernd. Ef þú vilt getur þú líka haft samband við okkur aftur og við aðstoðum þig við að hafa samband við barnaverndina þar sem þú átt heima.

Ef þú vilt fá frekari upplýsingar eða ert með fleiri spurningar skaltu endilega hafa samband aftur. 

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda