English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára strákur | Fjölskylda, Ýmislegt

Mega foreldrar taka launin mín og leggja inn á lokaðan reikning?

þið eruð kannski ekki rétta fólkið til að svara þessu enn... Ég byrjaði að vinna í sumar 10 klst á dag og var að fá útborgað um mánaðarmótin og fékk c.a 170þús enn það skiptir kannski ekki öllu máli. Foreldrar mínir ákváðu að taka helminginn af laununum mínum og leggja inná sparnaðarreikning (allt gott og blessað við það reeyndar enn) nema ég hafði aldrei gefið grænt ljós á það og núna er pningur sem ég er búinn að strita við að vinna mer inn fastur á reikning sem ég get ekki leist út fyrr enn að ég verð 18 ára. þannig ég er með tvær spurningar. A: má þetta? Og B: er e-h leið fyrir mig að ná peningnum aftur? P.s við vorum búinn að vera að tala um að leggja e-h hluta af peningnum mínum inná sparnaðar reikning og mín tillaga var að ég myndi halda öllum laununum mínum fyrir júní og myndi svo leggja allt að 3/4 af laununum mínum inná sparnaðar reikninginn í júlí og ágúst. (ég er með augastað á ákveðnum hlut sem ég hafði ætlað að kaupa mér enn á núna of lítið fyrir tilteknum hlut og gt því ekki keeypt hann ( skil vel að ég geti beðið í einn mánuð í viðbót og þá keypt mér tiltekinn hlut enn mér finnst bara pirrandi að þessi ákvörðun hafi verið gerð bæði án samráðs við mig né með mínu samþyki))

Komdu sæll

Börn eiga rétt á því að ráða yfir þeim peningum sem þau vinna sér inn sjálf.  Þó það sé alltaf gott að hlusta á ráðleggingar foreldra er lokaákvörðunin um það hvernig börn fara með sjálfsaflafé (=það sem þau vinna sér inn sjálf) hjá börnunum sjálfum, nema um sé að ræða mikla fjármuni (meira en 500 þúsund krónur) eða ef barnið fer mjög illa með peningana. Þetta stendur í lögum. 

Svörin við spurningum þínum eru því

A: Nei, foreldrar þínir áttu ekki að leggja peninginn þinn inn á lokaðan reikning án samþykkis þíns.

B: Það gæti verið erfitt að ná í peningana aftur.

Foreldrar þínir voru alveg örugglega að reyna að gera það besta fyrir þig. Kannski hafa þau misskilið þig og tekið það sem svo að þú væri samþykkur því að leggja fyrir hluta launanna og setja inn á þinn eigin sparnaðarreikning. 

Það er líklega engin leið fyrir þig að ná þessum peningum til baka núna ef þeir eru á lokuðum reikning þar til þú verður 18 ára. En þú getur þó alltaf prófað að tala við bankann. Það væri gott fyrir þig að ræða betur um þetta við við foreldra þína í góðu, segja þeim frá þínum óskum og ef til vill komist þið að einhverju öðru samkomulagi.

Þú getur lesið meira um fjármál á vefsíðunni okkar, hér á barna- og unglingasíðunni er fjallað um aðalatriðin  og hér  á fullorðinssíðunni er fjallað nánar um fjármálin.

Gangi þér vel. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna