English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Fjölskylda, Ýmislegt

Foreldrar nota launin mín

Mega foreldrar mínir láta mig millifæra launin mín inná sig? Ég held að peningarnir séu notaðir til að borga reikninga, mat og svoleiðis eða allavega eitthvað af þeim.  Má þetta? Ef þetta er ekki í lagi hvað get ég gert? Plís viltu svara fljótt.

Komdu sæl

Börn undir 18 ára aldri eiga sjálf að ráða yfir þeim peningum sem þau vinna sér inn fyrir. Það var því ekki rétt hjá foreldrum þínum að láta þig leggja inn launin þín inn á reikning þeirra. Foreldrar eiga að sjá um framfærslu barna til 18 ára aldurs, en það þýðir að börn eiga ekki að þurfa að borga fyrir mat, húsnæði og aðrar nauðsynjar. Það fyrsta sem þú getur reynt að gera er að benda foreldrum þínum á þetta og biðja þau um að endurgreiða þér þá peninga sem þú hefur lagt inn á þau.

Foreldrar eiga að aðstoða börn sín og ráðleggja þeim hvernig best er að fara með fjármuni sína. En það er mikilvægt að allir viti að foreldrar eiga ekki að blanda fjármunum barna sinna við sína eigin. Þetta stendur allt í lögræðislögum. Meira um þetta hér á síðunni um fjármál.

Ef foreldrar þínir eru ekki tilbúnir  til þess að endurgreiða þér þessa peninga getur þú haft samband við sýslumann  þar sem þú átt heima og óskað eftir aðstoð.. Sýslumenn eiga að hafa eftirlit með fjármálum barna.

Ef þú vilt ræða málið nánar er þér velkomið að hafa samband í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna