English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Fjölskylda, Ýmislegt

Sala eigna

Geta foreldrar bannað manni að selja eitthvað sem maður Á???

Komdu sæl

Því miður getum við ekki gefið þér JÁ eða NEI svar, án þess að vita meira um hvað málið snýst.

Almenna reglan er að börn ráða yfir eignum sínum, en eðli málsins samkvæmt skiptir aldur og þroski máli í þessu sambandi. Þá er t.d. verið að meina þá hluti sem þau hafa fengið gefins eða keypt sér sjálf. Barn má því yfirleitt ráða því sjálft ef það vill selja hlut sem skiptir það litlu máli (eins og t.d. flík sem það vill ekki nota, tölvuleik, bók eða eitthvað sambærilegt). En á sama tíma eiga foreldrar að leiðbeina börnum sínum og gæta þess að þau fari vel með það sem þau eiga. Er því yfirleitt best að börn ráðfæri sig við foreldra sína áður en þau selja eitthvað sem þau eiga.

Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og eiga að hjálpa þeim að fara vel með það sem þau eiga. Ef einhver er að reyna að plata barn til að selja sér einhverja verðmæta eign fyrir lítinn pening er alveg eðlilegt að foreldrar reyni eins og þeir geta að koma í veg fyrir það. Foreldrar sem banna börnum sínum að selja eitthvað mikilvægt eða verðmætt gera það líklega vegna þess að þeir eru að reyna að gæta hagsmuna barna sinna. Í einstaka tilfellum mega foreldrar banna barni sínu að selja eign sína, t.d. ef barnið ætlar sér að nota peninginn í eitthvað skaðlegt. Þetta þarf samt alltaf að meta í hverju tilviki fyrir sig – m.a. út frá því hversu miklir hagsmunir eru í húfi.

Ef þú vilt ræða málið nánar eða ert með fleiri spurningar skaltu endilega senda tölvupóst á ub@barn.is eða hringja í síma 800-5999.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna