English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 12 ára stelpa | Fjölskylda, Ýmislegt

Mega foreldrar pína mann á æfingu?

Meiga foreldrar pína mann til að mæta á æfingu ef maður vill það ekki eða ef maður er meiddur? Eiga börn ekki að ráða sjálf hvort þau eru í einhverjum íþróttum?

Komdu sæl

Börn eiga sjálf að ráða miklu um það hvaða þau gera í frítíma sínum. Börn eiga alltaf rétt á að hafa áhrif á það hvaða íþróttir eða tómstundir þau stunda og eiga áhrifin að verða meiri eftir því sem þau eldast og þroskast.

Þegar börn eru orðin 12 ára eiga þau því að ráða miklu um það hvort þau séu í íþróttum, tónlistarnámi eða öðru frístundarstarfi. Það er samt hlutverk foreldra að sjá til þess að börnum líði vel og foreldrar eiga að hjálpa börnum að finna frístundastarf sem hentar þeim. Foreldrar geta líka bannað börnum að gera eitthvað í frístundum sínum sem er ekki talið gott fyrir barnið.

Það er talið hafa góð áhrif á líðan og heilsu barna að taka þátt í íþróttum eða öðru skipulögðu frístundastarfi. Það er því mikilvægt að foreldrar og börn ræði saman og reyni að finna eitthvað frístundarstarf sem börnin hafa áhuga á.

Ef börn eru í frístundastarfi sem þau hafa ekki lengur gaman af er best að þau ræði það við foreldra sína og reyni að finna eitthvað annað sem hentar betur. Þegar börn hafa valið sér íþrótt, tónlistarnám eða annað frístundastarf er það líka hlutverk foreldra að styðja börnin sína og hvetja þau til þess að vera dugleg að mæta á æfingar.

Foreldrar eiga að sjálfsögðu að taka tillit til þess ef börn eru meidd, veik eða geta af öðrum ástæðum ekki mætt á æfingu. Þegar barn telur sig ekki geta mætt á æfingu vegna meiðsla eiga foreldrar ekki að þvinga það til þess að mæta. Ef barn er búið að vera meitt í einhvern tíma og treystir sér því ekki á íþróttaæfingar gæti verið góð hugmynd að foreldrar myndu ræða málið við þjálfara. Kannski gæti líka verið ástæða til að leita til læknis eða sjúkraþjálfara til að fá ráðleggingar um hvað er best að gera.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna