English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Skóli

Má kennari taka og geyma síma?

Má kennarinn taka af mér símann ef ég er bara með hann hjá mér og er ekki í honum. Hann sakaði mig að hafa verið í honum og neitaði síðan að gefa mér hann fyrr en eftir skóla. Hann skildi hann síðan eftir allann daginn á móttökuskrifstofunni þar sem hver sem er getur farið inn og stolið honum. Hver ber ábyrgð á því ef einhverjum GSM sima er stolið úr móttökunni?

Komdu sæl

Nei, kennarinn þinn mátti að mati umboðsmanns barna ekki taka símann af þér.  Hann hefði heldur ekki átt að skilja símann eftir allan daginn á skrifstofunni, en skólinn hefði þurft að bera ábyrgð ef einhver hefði stolið honum á þeim tíma sem hann var á skrifstofunni.

Hér getur þú lesið grein sem umboðsmaður barna hefur skrifað um þessi mál. Þar kemur meðal annars fram að börn njóti eignaréttar og friðhelgi einkalífs eins og aðrir. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimild til þess að taka síma eða aðrar eignir af nemendum. Það þýðir að kennarar og annað starfsfólk má ekki taka síma af nemendum, nema það sé nauðsynlegt til þess að vernda nemandann eða aðra nemendur. Á það til dæmis við ef það er verið að nota símann til þess að skaða aðra, til dæmis með því að sýna myndir eða annað efni sem getur talist niðrandi. Þegar kennari hefur síma nemanda í vörslu sinni ber skólinn ábyrgð á honum, til dæmis ef hann skemmist eða honum er stolið.

Nemendur verða þó almennt að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks. Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum starfsmanns skólans er heimilt að bregðast við með öðrum hætti en að taka eignir af nemendum. Kennari gæti til dæmis byrjað á því að áminna nemanda en ef það dugar ekki til er hægt að vísa honum úr kennslustund eða senda hann til skólastjóra. Nemandi getur líka samþykkt að afhenda símann sinn frekar en að fara úr tíma.

Endilega hafðu aftur samband ef þú vilt fá nánari upplýsingar eða þú ert með fleiri spurningar.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli