English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Fjölskylda

Hernig get ég flutt frá fjölskyldunni minni?

Hernig get ég flutt frá fjölskyldunni minni? Ég er 15 ára.

Komdu sæl

Foreldrar ráða almennt búsetustað barna sinna. Það þýðir að börn geta almennt ekki flutt frá fjölskyldum sínum, nema aðstæður á heimili séu þannig að öryggi og velferð þeirra sé stefnt í hættu.

Ef þér líður illa heima hjá þér er mikilvægt að barnaverndin sé látin vita. Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir eftir sveitarfélögum. Hlutverk barnaverndar er að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra. Barnaverndin  á til dæmis að reyna tryggja að öll börn séu örugg á heimilum sínum og að þeim líði vel. Ef þú telur þig ekki geta búið áfram með fjölskyldu þinni er mikilvægt að þú segir barnaverndinni frá því og þá á hún að kanna aðstæður hjá þér og bregðast við eins og hún telur best fyrir þig. Barnaverndin getur aðstoðað foreldra þína við uppeldið eða mögulega fundið  annað heimili fyrir þig ef aðstæður þínar eru mjög slæmar.

Þú getur haft samband við barnaverndina sjálf en það getur líka verið gott að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir, t.d. ættingja, umsjónarkennara eða námsráðgjafa, og biðja viðkomandi um að hafa samband við barnaverndina fyrir þig. Þú getur líka haft samband við okkur og við hjálpum þér að tala við barnaverndina. Þú getur annaðhvort sent okkur nánari upplýsingar um þig með tölvupósti á ub@barn.is eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).

Það er erfitt að svara þér betur þar sem við vitum ekki hvers vegna þig langar að flytja frá fjölskyldu þinni. Endilega hafðu samband aftur ef þú vilt frá nákvæmara svar.

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda