English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 17 ára strákur | Skóli, Vímuefni

Áfengismælar og böll

Hæ. Ég var að pæla í því þegar krakkar eru látnir blása í áfengismæli áður en þeir fara á ball í framhaldsskóla. Má láta alla blása? Má segja að ef þú blæst ekki þá kemstu ekki inn?

Komdu sæll

Það er í raun ekkert sem bannar starfsfólki skóla eða öðrum aðilum að nota áfengismæla. Þar sem nemendur í framhaldsskólum njóta friðhelgi einkalífs eins og aðrir, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, er hins vegar ekki hægt að neyða þá til þess að blása í slíka mæla.

Samkvæmt áliti frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu má ekki banna nemendum þátttöku á skólaskemmtun einungis vegna þess að þeir neita að blása í áfengismæla. Samkvæmt reglum flestra, ef ekki allra, framhaldsskóla er þó heimilt að vísa nemendum frá ef grunur er á að þeir séu undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Þegar til stendur að vísa nemenda frá vegna þess að hann lítur út fyrir að vera ölvaður eða dópaður er heimilt að nota áfengismæla til þess að gefa viðkomandi tækifæri til þess að afsanna grunsemdir um áfengisneyslu. Það er þó alltaf hægt að neita því að blása og sleppa því að fara á ballið.  Hér er hægt að lesa álitið í heild sinni.

Þetta á við um alla nemendur, hvort sem þeir eru undir 18 ára aldri eða ekki.

Ef þú ert með frekari spurningar eða vilt ræða málið nánar er þér velkomið að hafa samband í síma 800-5999.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli Vímuefni