English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára strákur | Fjölskylda

Heimilisstörf

Hvað þarf ég að sinna miklum heimilisverkum?

Komdu sæll

Það á að vera sjálfsagt að hver fjölskyldumeðlimur geri sitt besta til að aðstoða við heimilisverkin. Sumir hafa þá reglu að hver og einn fjölskyldumeðlimur hafi sitt verk. Börn fá þá hlutverk sem hæfa aldri þeirra og þroska, það getur t.d. verið að taka úr uppþvottavélinni, fara út með ruslið, ryksuga, halda herberginu sínu hreinu og fleira. Eftir því sem börn verða eldri því flóknari geta heimilisverkin orðið. Börn eiga þó ekki að þurfa að sinna það miklum heimilisverkum að þau hafi ekki nógan tíma til þess að sinna áhugamálum sínum, hitta vini og læra heima. Þar að auki eiga börn rétt á því að fá þá hvíld sem þau þurfa.

Það á að vera samkomulagsatriði milli þín og foreldra þinna hvaða heimilisverkum þú sinnir. Ef þú ert ósáttur við þar hversu miklum verkefnum þú sinnir er best að þú ræðir það við foreldra þína. Þið getið vonandi komist að samkomulagi sem þið eruð öll sátt við.

Á heimasíðu umboðsmanns barna er að finna upplýsingar um lög og reglur sem gilda um vinnu barna (/malaflokkar/vinna/). Þó að heimilisstörf teljist ekki beinlínis vinna er þar að finna ýmis sjónarmið sem gott er að hafa í huga, t.d. varðandi það hvaða störf börn mega ekki vinna.

Ef þú vilt ræða málið nánar er þér velkomið að hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Fjölskylda