English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára strákur | Ýmislegt

Má lögreglan leita á mér?

Hefur lögreglan rétt á að leyta á mér og ef hún gerir það án mitt leyfi og ég ekki undir handtöku er þetta brot á friðhelgi minni og á ég rétt á skaðabótum ?

Komdu sæll

Allir - þar á meðal börn - eiga rétt á friðhelgi einkalífs. Þessi réttur er meðal annars tryggðir í 71. gr. stjórnarskrár Íslands. Þar segir meðal annars að ekki megi leita á manni nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.

Lögreglan má leita á einstaklingi ef hún hefur góða ástæðu til þess að gruna að hann hafi framið afbrot sem getur varðað fangelsisrefsingu eða sé með einhvern hlut á sér sem lögreglan telur sig hafa heimild til þess að taka af honum, t.d. stolinn hlut  (sjá 76. gr. í lögum um meðferð sakamála). Áður en lögreglan leitar á einstaklingi þarf hún almennt að fá skýrt samþykki. Lögreglan má hins vegar leita á einstaklingi án dómsúrskurðar ef það er talið nauðsynlegt og mikil hætta er á að það skaði rannsókn málsins að bíða.

Þetta þýðir að lögreglan má yfirleitt ekki leita á þér án þess að þú samþykkir. Ef lögreglan hefur góða ástæðu til þess að halda að þú hafir framið afbrot, til dæmis stolið einhverju, en þú neitar því að leyfa henni að leita á þér, gæti hún hins vegar ákveðið að handtaka þig og óska eftir úrskurði dómara fyrir því að mega leita á þér. Þetta á þó ekki við ef brotið sem þú ert grunaður um er mjög smávægilegt og gæti ekki varðað fangelsisrefsingu.

Ef lögreglan leitar á einstaklingi, án samþykkis eða dómsúrskurðar, telst það yfirleitt brot á friðhelgi einkalífs. Það má hins vegar takmarka friðhelgi einkalífs ef það er talið algjörlega nauðsynlegt vegna réttinda annarra. Lögreglan má því leita á einhverjum ef hún hefur góða ástæðu til að halda að það sé nauðsynlegt til þess að vernda viðkomandi einstakling eða aðra. Það gæti til dæmis átt við er lögreglan veit að einstaklingur er með vopn eða aðra hættulega hluti á sér.

 

Þar sem við vitum ekki í hvaða aðstæðum þú varst í þegar lögreglan leitaði á þér er erfitt að segja hvort það hafi verið brotið gegn rétti þínum til friðhelgi einkalífs. Þér er velkomið að senda okkur frekari upplýsingar ef þú vilt fá nákvæmara svar.

Gott er að hafa í huga að líkamsleit skal alltaf gerð af lögreglumanni sem er sama kyns og sá sem leitað er á. Einnig þarf lögreglan alltaf að koma fram við börn af virðingu og sýna varfærni við framkvæmd leitar. 

Varðandi það hvort þú eigir rétt á skaðabótum fer það eftir ástæðum leitarinnar og hvernig hún var framkvæmd. Ef lögreglan braut á rétti þínum til friðhelgi einkalífs og þú hlaust skaða af vegna þess, gætir þú mögulega átt rétt á skaðabótum.

Ef þú telur að lögreglan hafi brotið gegn þér er mikilvægt að þú látir foreldra þína eða einhvern annan fullorðinn sem þú treystir vita. Þið getið þá kannski saman komið kvörtun á framfæri til lögreglunnar.

Endilega hafðu samband í síma 800-5999 (gjaldfrjáls) ef þú vilt ræða málið nánar eða ert með frekari spurningar.

Gangi þér vel! 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Ýmislegt