English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Vinir og félagslíf, Heilsa og líðan

Vinkonu líður mjög illa

Þetta erindi hefur verið stytt af umboðsmanni barna.

Það er þessi stelpa í skólanum mínum sem að ég hef alltaf þekkt sem skemmtilegu, hressu og glöðu stelpuna en nýlega hef ég verið að kynnast henni betur og betur. En eitt kvöldið þegar við vorum samferða heim úr félagsmiðstöðinni stoppuðum við fyrir utaf húsið hjá henni og fórum að tala saman og hún algjörlega brotnaði niður fór að gráta og fór að tala um að henni leið svo rosalega ílla alltaf og langaði ekki að lifa lengur.

Hún sagði: Þegar mamma greyndist með krabbamein varð ég mjög þunglynd og leið svakalega ílla alltaf en enginn tók eftir því vegna þess að það voru allir svo uppteknir af því hvað mamma var veik svo ég fékk litla sem enga athygli frá fjölskylldu minni. Mamma sigraðist á krabbameininu og varð heil heilsu en ég var ennþá þunglynd og var farin að skera mig mikið og reyna að fremja sjálfsmorð því mér leið svo ílla að ég sá enga leið út en mamma tók svo eftir því hvernig mér leið og var farin að sjá meiðslin sem ég hafði gert við sjálfan mig svo hún sendi mig til sálfræðings sem hjálpaði eiginlega ekkert og mér fannst eins og allri fjölskyldunni minni væri allveg sama um mig vegna þess að það voru alltaf allir að skamma mig og hvað sem ég reyndi var aldrei neitt nógu gott sem ég gerði. Líka fór ég að detta úr vinahópnum mínum og vinir mínir voru hættir að vera með mér og þá fór ég að vera mikið ein sem er ekki gott fyrir mig því þá er það eina sem ég hugsa um er hversu mikið mig langar að deyja. Ég þori ekki að segja neinum og hef aldrei gert það fyrr en núna. Þú ert sú fyrsta sem ég hef sagt frá hvernig mér líður í alvöru og mig vantar hjálp ég veit það en vill ekki segja mömmu og pabba og ég veit að ef ég segja einhverjum fullorðnum seigja þeir strax mömmu og pabba. Ég veit ekki hvað ég á að gera viltu hjálpa mér.

Ég hafði aldrei lent í neinu svona áður og vissi lítið hvað ég gat sagt við hana þar sem ég var farin svo mikið að gráta sjálf. Mín spurning til ykkar er hvað á ég að gera? Eru kennarar og skólasálfræðingar skildugir til þess að tilkynna allt svona til foreldra þó að barnið vilji það ekki? Geriði það hjálpið mér mig langar svo mikið að geta hjálpað þessari frábæru og yndislegu stelpu.

Sæl og blessuð.

Fyrst langar okkur að hrósa þér fyrir að senda þetta erindi og vilja hjálpa vinkonu þinni. Það er þó leitt að heyra hvað henni líður illa. Ef til vill getur þú best hjálpað henni með því að vera til staðar og hlusta þegar hún þarfnast þess.

Foreldrar hennar bera ábyrgð á líðan hennar og velferð og þekkja hana einna best. Því er það alltaf best þegar börn tala við foreldra sína og láti þau vita þegar þeim líður illa. En ef hún treystir sér ekki til að tala við foreldra sína þá má benda henni á að ræða við einhvern annan fullorðinn sem hún treystir, t.d. ömmu, afa eða einhvern í skólanum t.d. kennara, skólahjúkrunarfræðings eða námsráðgjafa.

Börn eiga rétt á trúnaði hjá starfsfólki skólans þannig að starfsfólkið á ekki að láta foreldra vita ef barnið vill það alls ekki. Hins vegar er starfsfólkið bundið þeirri skyldu að láta barnaverndina vita ef það telur viðkomandi barn í hættu. Allir bera þessa skyldu.

Í rauninni virðist ástandið á vinkonu þinni vera það alvarlegt að ef foreldrar hennar taka því ekki alvarlega þá er réttast að fá aðstoð barnaverndarnefndar á því svæði sem hún býr. Hér er tengill á allar barnaverndarnefndir á Íslandi: Allir geta óskað eftir aðstoð barnaverndar, líka börnin sjálf. Þið skulið ekki vera feimnar við að láta barnaverndina vita af þessu. Námsráðgjafinn í skólanum eða einhver annar sem þið treystið getur líka látið barnaverndina vita. Svo metur barnaverndin hvernig best er að taka á málinu.

Ef barnaverndin metur ástandið sem alvarlegt þá gæti verið að Barna- og unglingageðdeild geti hjálpað. Á Barna- og unglingageðdeid (BUGL) starfar fólk sem aðstoðar krakka sem líður svo illa að þau vilja skaða sig eða deyja. Til að fá betri upplýsingar er hægt er að hringja í síma 543-4300 og biðja um einhvern í bráðateymi.

Á heimasíðunni okkar eru ýmsar upplýsingar um hvar hægt er að leita eftir aðstoð þegar börnum líður illa, sjá hér. Þú getur líka bent henni á þá síðu.

Á heimasíðunni www.6h.is er hægt að senda fyrirspurn til hjúkrunarfræðings. Þar er einnig að finna bækling sem heitir „Geðheilsan þín skiptir máli!“ sem má finna hér. Þar kemur meðal annars fram hvað hægt er að gera þegar maður heldur að vinur eða vinkona sé í geðheilsuvanda.

Þar segir: 

Þú skalt hvetja vin þinn til að tala við einhvern fullorðinn sem hann treystir. Ef hann eða hún vill það ekki þá ættir þú að tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir. Ef vinur þinn talar um sjálfsvíg talaðu þá strax við einhvern fullorðinn. Reyndu alls ekki að fást við þetta vandamál ein(n). Umfram allt, ekki gefast upp. Haltu áfram að vera vinur. Að hlusta og vera opin(n) fyrir tilfinningum annarrar manneskju er mikilvægt. Vinur þinn þarf ekki ásakanir eða skammir, hann eða hún þarfnast vináttu þinnar.

Þú getur líka bent vinkonu þinni á að hún getur alltaf leitað til okkar hjá umboðsmanni barna og fengið ráðgjöf og leiðbeiningar um það hvað hægt er að gera. Við gerum ávallt okkar besta til að aðstoða börn þegar þau leita sjálf til okkar. En umboðsmaður barna ber líka þá skyldu að tilkynna til barnaverndarnefndar er erindið er þannig. Ef við gerum það getur það verið jákvætt fyrir hana og góð leið til að fá aðstoð. Hægt er að senda tölvupóst, í gegnum heimasíðuna barn.is eða hringja 800-5999 sem er gjaldfrjáls barnasími. Þér er velkomið að hafa samband aftur ef þú vilt. Gangi ykkur vel. Kær kveðja frá umboðsmanni barna