English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Fjölskylda

Má ég ráða hvort ég flyt til útlanda til pabba míns?

Það er svoleiðis að faðir minn hefur búið erlendis í næstum 7  ár og ég bý á Íslandi hjá móður minni og systur... ég hef mikið verið að hugsa um það hvort að ég geti ráðið einhverju um það hvort að ég bý hér eða hjá pabba?

Komdu sæl

Í erindi þínu til umboðsmanns barna spyrð þú hvort að þú getir ráðið því hvort þú flytjir erlendis til föður þíns?

Samkvæmt  barnalögum nr. 76/2003 er það hlutverk foreldranna að semja um forsjá og lögheimili barna sinna eða dómstóla að dæma um forsjána ef samkomulag næst ekki. Þú getur því ekki ákveðið sjálf að flytja til pabba þíns ef mamma þín vill það ekki.

Þú átt þó alltaf rétt á því að segja þína skoðun og foreldrar þínir eiga að taka tillit til hennar í samræmi við aldur þinn og þroska sbr. m.a 12. gr. barnasáttmálans. Þar sem þú ert 13 ára ætti vilji þinn að hafa einhver áhrif á ákvörðun um búsetustað þinn, þótt það sé alltaf mamma þín (ef hún fer ein með forsjána) eða foreldrar þínir (ef þau fara með sameiginlega forsjá) sem eiga lokaorðið um það hvar þú býrð.

Lögheimili barns fylgir alltaf lögheimili forsjáraðila þess. Ef barn á að flytja til forsjárlauss foreldris þá verða foreldrar þess því að komast að samkomulagi um að breyta forsjánni eða fara með forsjármál fyrir dómstóla. Ef báðir foreldrar fara með forsjá barns saman þá þarf það foreldri sem barnið er með lögheimili hjá að samþykkja flutning lögheimilis þess.

Það gæti verið góð hugmynd  fyrir þig að ræða þetta við foreldra þína. Þið getið vonandi komist að einhverri niðurstöðu sem allir eru sáttir við.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna.

Flokkur: Fjölskylda