English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Ýmislegt

Bandaríkin og Barnasáttmálinn

Af hverju hafa Bandaríkin ekki samþykkt Barnasáttmálann?

Komdu sæl

Bandaríkin hafa lýst því yfir að þeir þurfi í raun ekki að samþykkja sáttmálann þar sem börnum sé nú þegar tryggð fullnægjandi réttindi í lögum. Auk hafa nokkrar ástæður verið nefndar fyrir því að Bandaríkjamenn samþykki ekki sáttmálann:

  • Margir eru ósammála þeirri grein sáttmálans sem fjallar um refsingu fyrir unga afbrotamenn, en þar kemur meðal annars fram að aldrei megi dæma barn undir 18 ára aldri í lífstíðarfangelsi eða til dauðarefsingar. Bandaríkjamenn hafa ekki viljað samþykkja þetta og telja það skerða frelsi bandarískra dómstóla. Nú hefur Hæstiréttur Bandaríkjanna þó lýst því yfir að það stangist á við stjórnarskrá að dæma börn til dauða. Því miður er þó enn hægt að dæma börn í lífstíðarfangelsi, án möguleika á reynslulausn.
  • Sumir Bandaríkjamenn telja Barnasáttmálann ganga of langt í að tryggja efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Á það til dæmis við um réttinn til heilbrigðisþjónustu og menntunar.
  • Því hefur einnig verið haldið fram að sáttmálinn skerði frelsi foreldra til þess að ráða yfir börnum sínum, en það er þó ekki rétt. Sáttmálinn viðurkennir rétt foreldra til að bera meginábyrgð á börnum sínum. Ríkinu ber þó að bregðast við ef foreldrar  þurfa á aðstoð að halda eða geta ekki sinnt þessu hlutverki sínu.

Þó að Bandaríkin hafi enn ekki staðfest Barnasáttmálann eru ýmsir Bandaríkjamenn sem berjast fyrir því að sáttmálinn verði fullgiltur þar.

Kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt