English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára strákur | Ýmislegt

Langar ekki að fara í unglingavinnuna

Mér langar ekki að vinna í sumar enn Foreldrar mínir vilja að èg fari að vinna , ég er bara 14 ára og finnst að ég ætti að ráða því enn hvort ég vinn eða ekki . En foreldrar eru ansi ákveðnir í því að ég ætti að vinna og vilja að ég fari í unglingavinnuna .

EF ég myndi byrja að vinna mundi ég ekki vilja vinna þar , mér finnst það allt of lítið borgað og mér langar ekki að vera ad vinna innan um jafnaldra mína. Hvar gét ég annarstaðar fengið vinnu? :-/ þó mér langi ALLS EKKI að vinna . :( :(

Komdu sæll.

Þú segir að þig langi alls ekki til að vinna í sumar og að foreldrar þínir vilji endilega að þú farir í unglingavinnuna í sumar. Það væri best fyrir þig að setjast niður með foreldrum þínum og koma þínum sjónarmiðum á framfæri. Þá geta þau líka útskýrt af hverju þau telja það best fyrir þig að fara í unglingavinnuna. Foreldrar eiga að hugsa um hag barnanna sinna hverju sinni og hlusta á skoðanir þeirra og taka tillit til þeirra með hliðsjón af aldri og þroska barnanna. Ef þú vilt ekki vinna með jafnöldrum þína vegna stríðni eða annarra vandamála með samskiptin við þá er mikilvægt að  foreldrar þínir taki sérstakt tillit til þess og hjálpi þér að vinna úr málunum. 

Vinnuskólinn er yfirleitt fyrsta skref unglinga til að læra að vinna og hefur hann reynst mörgum góð reynsla. Launin eru kannski ekki há en flestir velja þó að hafa einhverja vinnu en enga. Einhvers staðar verður fólk að byrja starfsferil sinn og vinnuskólinn getur því verið ágætur grunnur að erfiðari og betur launuðum störfum síðar. Samkvæmt lögum eiga börn rétt á að ráða því fé sem þau vinna sér inn og því getur þú sjálfur ráðið því hvernig þú ráðstafar peningnum sem þú vinnur þér inn. Það gæti líka komið sér vel síðar að eiga peninga þegar þú vilt kaupa eitthvað eða gera eitthvað skemmtilegt sem kostar pening.

Varðandi aðra vinnu þá er ekki auðvelt fyrir 14 ára að fá aðra sumarvinnu en vinnuskólann eða unglingavinnuna þannig að umboðsmaður barna á erfitt með að svara hvar þú getur sótt um aðra sumarvinnu. Það eru ákveðnar reglur sem gilda um vinnu barna yngri en 15 ára. Almenna reglan að ekki má ráða börn í skyldunámi til vinnu.  Víkja má frá því í eftirfarandi tilvikum:

• Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
• Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
• Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa og börn sem náð hafa 13 ára aldri má ráða til léttari starfa í takmarkaðan stundafjölda, svo sem léttari garðyrkju- og þjónustustörf eða önnur hliðstæð störf.

Í IV. viðauka reglugerðar nr. 426/1999 er listi yfir störf af léttara taginu sem 13 ára og eldri mega vinna. Meðal þeirra er vinna í skólagörðum undir umsjón kennara, létt skrifstofustörf, létt fiskvinnslustörf án véla, sala dagblaða, létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa.  Í reglugerðinni er tekið fram að ekki sé um tæmandi talningu á störfum að ræða og er það Vinnueftirlitsins að meta hvort starf sé sambærilegt við ofangreinda lýsingu þegar sótt er um leyfi fyrir starfi sem ekki er á listanum.

Endilega ræddu við foreldra þína og komdu þínum sjónarmiðum á framfæri og hlustaðu á hvað þau hafa að segja um málið. Best væri ef þið gætuð komist að sameiginlegri niðurstöðu sem allir geta sætt sig við.

Kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt