English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 18 ára strákur | Skóli

Framhaldsskóli afhendir einkunnir til foreldra

Ég varð 18 ára snemma á árinu og er í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Mátti skólinn minn afhenda foreldrum mínum einkunnirnar mínar?

Þó svo að ég sé búinn að vera fullorðinn einstaklingur í nokkra mánuði?

Komdu sæll.

Ef um er að ræða tilvik þar sem skólinn þinn afhenti foreldrum þínum einkunnirnar þínar (til dæmis við skólaslit) hefur sá sem afhenti þeim skjalið e.t.v. talið að þú hafir veitt samþykki fyrir því að foreldrar þínir myndu taka við einkunnunum fyrir þína hönd.

Ef skólinn afhenti foreldrum þínum einkunnirnar þínar samhliða því að þér voru afhentar þær horfir málið öðruvísi við. Þó svo að þú hafir náð 18 ára aldri og sért orðinn lögráða einstaklingur þá hafa framfærslu- og umönnunarskyldur foreldra þinna ekki endilega fallið niður. Ef þú býrð ennþá heima hjá foreldrum þínum er eðlilegt að þau vilji fylgjast með framvindun þinni í náminu og gæta þess að þér gangi vel og að þú stundir námið. Ef þér gengur illa í skólanum vill skólinn þinn væntanlega vekja athygli foreldra þinna á því til þess að þeir geti brugðist við og stutt betur við þig með námið. Þannig getur tilgangur skólans að afhenda einkunnir til foreldra verið góður og með hag þinn að leiðarljósi.

Umboðsmaður barna telur þó eðlilegt að haft sé samráð við þig þegar einkunnir eru afhentar foreldrum og þú látinn vita af því ef til stendur að afhenda foreldrum þínum þær þannig að þér sé gert kleift að hafa uppi mótmæli. 

Ef þú ert ósáttur við ákvörðun skólans gætir þú, þar sem hugsanlega er um að ræða persónuupplýsingar sem kunna að falla undir lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, leitað til Persónuverndar og lagt fram formlega kvörtun. Eyðublaðið fyrir kvörtun hjá Persónuvernd er að finna á vef Persónuverndar. Ef þig vantar frekari aðstoð skaltu endilega hringja í Persónuvernd í síma 510-9600.

Ef það vakna frekari spurningar er þér líka alltaf velkomið að hafa samband aftur með því að senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barn.

Flokkur: Skóli