English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Fjölskylda

Vil ákveða hjá hvoru foreldrinu ég bý

Ég verð 17 ára í september. foreldrar mínir eru að skilja

Hef ég ekki fullan rétt á að ákveða hjá hvoru foreldri ég vil hafa búsetu, og hvað get ég gert tll að það foreldri sem ég vil ekki hafa búsetu hjá virði mínar óskir. Vonandi fæ ég lausn.

Komdu sæl

Foreldrar þínir þurfa að taka ákvörðun um dvalarstað þinn en þeim ber að taka tillit til óska þinna. Svona stendur þetta í barnalögum:

28. gr.Inntak forsjár.
Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.
Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.
Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.
Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það. Foreldri sem fer eitt með forsjá barns síns er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.
Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.
...

Eins og þú sérð af undirstrikuðu ákvæðunum eiga foreldrar þínir að hlusta á þig áður en þeir taka ákvörðun um búsetu þína. Eftir því sem börn verða eldri ættu þau að hafa meiri áhrif á ákvarðanir eins og dvalarstað sinn.

Almennt er talið að unglingar sem eru orðnir 16 eða 17 ára ráði því sjálfir hjá hvoru foreldrinu þeir búa og hvernig umgengni er háttað nema óskir unglinganna gangi beinlínis gegn velferð þeirra.

Þú getur auðvitað sýnt foreldrum þínum þetta svar til að þau sjái að það er í raun lagaleg skylda þeirra að taka tillit til óska þinna. Ef þau vilja er þeim velkomið að hafa samband við skrifstofu umboðsmanns barna til að fá nánari útskýringar á þessu.

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna 

 

Flokkur: Fjölskylda