English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Skóli

Of mikið heimanám

Hvað á maður að gera ef allur bekkurinn finnst að það sé of mikill lærdómur í skólanum og eftir skóla þarf maður að læra meira og maður vill minna heimanám?

Komdu sæl.

Það er eðlilegt að það sé eitthvað heimanám í skólanum en ef þið teljið að álagið varðandi heimanám sé meira en eðlilegt má telja þá ættuð þið að koma þeirri ábendingu áfram til skólans.

Til að byrja með ætti bekkurinn að koma sínum sjónarmiðum til umsjónarkennarans, námsráðgjafans eða til skólastjórans. Einnig er skólaráð samráðsvettvangur skólastjórnenda og skólasamfélagsins og þar eiga nemendur að hafa tvo fulltrúa sem eru tengiliðir allra hinna nemendanna við skólaráðið. Þeir geta komið fyrirspurnum og tillögum til skólaráðsins. Þið getið t.d. aflað ykkur upplýsingar um það hverjir séu fulltrúar nemenda í ykkar skóla og komið til þeirra ábendingu um að ykkur finnst álagið of mikið í heimalærdómi.  Þeir fulltrúar sjá þá um að koma þeim ábendingum áleiðis til skólaráðsins.

Í hverju sveitarfélagi er starfandi skólanefnd og til þeirra nefndar getur bekkurinn líka skrifað bréf og komið skoðunum sínum á framfæri.

Það eru margar leiðir færar til að koma skoðunum nemenda á framfæri og á unglingasíðu umboðsmanns barna má finna margvíslegar upplýsingar um réttindi barna. Hér eru nánari upplýsingar um það hvernig krakkar geta haft áhrif og hér eru upplýsingar um réttindi og skyldur barna í grunnskólum.

Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og skal taka tillit til þeirra sjónarmiða í skólastarfi eins og unnt er. Umboðsmaður barna vill því gjarnan fylgjast með hvernig ykkur gengur að koma skoðunum ykkar á framfæri við skólann ykkar. Okkur þætti því vænt um ef þið senduð okkur í lokin tölvupóst og segðuð frá því hvernig til tókst.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli