English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 14 ára stelpa | Skóli

Má kæra ef eithver seigir leyndarmálið mitt öllum skólanum?

Má kæra ef einhver seigir leyndarmálið mitt öllum skólanum?

Komdu sæl

Allir eiga rétt á því að njóta friðhelgi einkalífs, eins og meðal annars kemur fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar  og 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í friðhelgi einkalífs felst meðal annars að einstaklingar eiga rétt á að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Þetta þýðir að það er alltaf bannað að segja frá leyndarmálum annarra.

Í lögum er hægt að finna refsiákvæði sem taka á því þegar brotið er gegn friðhelgi einkalífs. Eins og til dæmis í 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir meðal annars að það sé hægt að refsa einstaklingi sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi sem réttlæti verknaðinn. Þannig að ef sá sem deildi leyndarmáli þínu með öllum skólanum hafði enga góða ástæðu fyrir því getur þú strangt til tekið kært hann til lögreglu. Viðkomandi verður þó aðeins refsað ef brotið er talið alvarlegt og hann er orðinn sakhæfur þ.e. 15 ára.

En þú verður samt að hafa í huga að þó svo að þú getir kært einstakling fyrir að segja frá leyndarmálum þínum er oftast betra að reyna leysa málin innan skólans eða vinahópsins. Umboðsmaður barna mælir með því að þú ræðir þetta við umsjónarkennara þinn, skólastjóra, námsráðgjafa eða einhvern annan sem þú treystir innan skólans. Starfsfólki skólans ber að taka á því þegar brotið er á réttindum nemenda innan skólans, aðstoða nemendur í samskiptaerfiðleikum og hjálpa þeim sem líður illa.

Hvað sem þú gerir skaltu endilega ræða þetta við foreldra þína. Ef þér líður mjög illa er mikilvægt fyrir þau að vita af því til að geta hjálpað þér.

Endilega hafðu samband í síma 800-5999 (gjaldfrjálst) ef þú vilt fá nánari upplýsingar.

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli