English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 17 ára strákur | Fjölskylda

15 ára beitt ofbeldi og vanrækt

Vinkona mín er í ruglinu núna, er með geðhvarflasýki og athyglisbrest og foreldrar hennar kaupa ekki lyf handa henni afþví að hún borðar ekki mikið og kemst ekkert áfram í skólanum, hún er 15 ára. hún hefur komið heim til mín grátandi klukkan 3 á nóttunni alveg út úr heiminum og svo þegar ég fer með hana heim þegar hún er sober þá lemja foreldrar hennar hana, öskra á hana og kalla hana hóru. Er það löglegt að foreldrar kaupi ekki lyf handa börnunum sínum og lemji þau og kalli þeim nöfnum?  

Komdu sæll

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og í því felst meðal annars skylda til þess að tryggja börnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Foreldrar eiga því alltaf að kaupa handa börnum sínum þau lyf sem þau þurfa á að halda.

Það er aldrei heimilt að beita börn ofbeldi, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt. Í barnaverndarlögum segir meðal annars að sýna skuli börnum virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna

Foreldrar vinkonu þinnar eru því að brjóta alvarlega á réttindum hennar og stefna velferð hennar í hættu. Umboðsmaður barna vill benda þér á að tilkynna um aðstæður vinkonu þinnar til barnaverndar í því sveitarfélagi sem hún býr. Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir í landinu. Það er einnig hægt að hringja í 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar.  

Vinkona þín er heppin að eiga vin eins og þig sem hún getur leitað til. Umboðsmaður barna mælir með því að þú haldir áfram að vera til staðar fyrir hana og hvetjir hana til að leita sér aðstoðar hjá barnaverndinni. Það getur einnig verið gott fyrir hana að ræða þetta við einhvern annan fullorðinn sem hún treystir, t.d. innan skólans eða á heilsugæslunni.

Vinkonu þinni er að sjálfsögðu velkomið að leita til umboðsmanns barna til að fá aðstoð og upplýsingar um hvert hún getur leitað. Ef umboðsmaður barna fær nánari upplýsingar um málið mun hann einnig tilkynna það til barnaverndar.

Endilega hafðu samband í síma 800-5999 (gjaldfrjálst) ef þú vilt fá nánari upplýsingar eða aðstoð.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Fjölskylda