English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 17 ára strákur | Ýmislegt

Búseta og barnavernd

Hvernig eru reglur um það að barnaverndarnefnd megi láta ólögráða einstakling (17 ára) fara út af heimilinu og hann látinn búa einn? Semsagt ekki hjá neinum heldur í nokkurskonar sjálfstæða búsetu.

Komdu sæll

Þeir sem fara með forsjá barns ráða búsetustað þess.

Áður en spurningu þinni er svarað nákvæmar er kannski gott að benda á að foreldrar og börn þeirra á unglingsaldri komast oft að samkomulagi um að unglingurinn búi ekki hjá foreldrum sínum, t.d. ef það hentar betur vegna skólagöngu eða vinnu. Það er alveg í samræmi við 28. gr. barnalaga um inntak forsjár en þar segir að foreldrar (sem fara með forsjá barns síns) ákveði búsetustað barns síns en þeim ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Afstaða barns á að fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Ef barnaverndin hefur haft málefni barnsins til meðferðar skiptir máli hvort forsjáin hefur breyst. Ef foreldrarnir fara ennþá með forsjá barnsins þá er það ennþá þeirra að gefa lokaorðið um búsetustað barnsins en þeim ber þá að taka tillit til álits barnaverndarinnar á því eftir atvikum. Ef foreldrar hafa hins vegar verið sviptir forsjá þá fer barnaverndarnefnd með forsjá barns og tekur ákvörðun um dvalarstað barnsins – að höfðu samráði við barnið eftir því sem þroski þess gefur tilefni til.

Barnaverndarnefnd á, alveg eins og foreldrar, alltaf að haga málefnum einstakra barna þannig að það sé barninu fyrir bestu. Ef barninu hefur verið komið í varanlegu fóstri færist forsjáin til fósturfjölskyldunnar.

Vonandi skýrir þetta málið eitthvað. Hafðu endilega samband aftur ef það eru fleiri spurningar sem brenna á þér.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Ýmislegt