English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 8 ára stelpa | Ýmislegt

Megum ekki lengur fara ein í sund

Hæ Við erum hér nokkrir krakkar í litlum bæ út á landi sem erum fædd 2002 og við förum oft í sund. Samkvæmt einhverjum lögum þá máttum við fara ein í sund á þessu ári (8 ára) . Sem er gott. En núna eru nýjar reglur að koma og þá mega bara 10 ára krakkar fara ein í sund.

Við erum ekki sátt við að það sé verið að taka réttindi af okkur. Er þá bara ekki hægt að gera þessa lagabreytingu hægar og næsta ár megi 9 ára börn fara ein í sund og svo 10 ára börn árið 2012? Fullornir væru ekkert ánægðir með að missa svona réttindi. Kær kveðja Katla

Komdu sæl og takk fyrir erindið

Slys á börnum eru allt of algeng. Reglunum um aðgang barna að sundstöðum var breytt til að veita börnum meiri vernd. Með breytingunni er vissulega verið að skerða frelsi krakka á aldrinum 8 til 10 ára en það er samt ekki hægt að segja að það hafi verið að taka réttindi af þessum hópi barna. 

Ástæðurnar fyrir þessum breytingum eru margar og margir tóku þátt í að ákveða þetta. Það sem  haft var í huga þegar ákveðið var að börn þyrftu að vera orðin 10 ára til að mega fara ein í sund var til dæmis að í sundi geta skapast hættulegar aðstæður sem ekki er hægt að ætlast til að öll börn undir 10 ára ráði við.

Umboðsmaður barna var sammála því að breyta aldurstakmarkinu úr 8 árum í 10 ár enda höfðu margir sagt honum að það væri alls ekki alltaf öruggt að leyfa 8 ára börnum að fara ein í sund. Fyrst átti að hafa reglurnar þannig að maður þyrfti að vera orðinn 18 ára til að mega fara með barni undir 10 ára í sund en eftir athugasemdir frá umboðsmanni barna var því breytt þannig að unglingar sem eru orðnir 15 ára mega fara með barni (eða tveimur börnum) undir 10 ára í sund.

Auðvitað eru aðstæður í sundlaugum landsins mjög mismunandi og á sumum stöðum telst það líklega öruggt fyrir vel synd 8 ára börn að fara í sund í lítilli sundlaug þar sem þau þekkja vel til. En það verða að gilda sömu reglur fyrir allt landið. Það eina sem hægt er að gera er að fá einhvern fullorðinn með ykkur sem getur borið ábyrgð á ykkur á meðan þið eruð í sundi.

Umhverfisráðuneytið setti reglugerðina sem tekur gildi 1. janúar 2011. Þar geta menn örugglega svarað af hverju aldurslágmarkið verður ekki hækkað í þrepum.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Ýmislegt