English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára strákur | Fjölskylda

Útivist og Facebook

Ég er 16 ára strákur og foreldrar mínir banna mér að fara út á kvöldin. Geta þau virkilega bannað mér að fara út á kvöldin?

Þau banna mér einnig að eiga Facebook síðu. Geta þau bannað mér það? Má ég ekki eiga eitthvað einkalíf?

Komdu sæll 

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs, eins og meðal annars kemur fram í 16. gr. Barnasáttmálans og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í því felst að þau eiga rétt á því að njóta friðar um einkahagi, eiga samskipti við aðra og ráða almennt yfir lífi sínu og líkama. Foreldrar fara með forsjá barna sinna fram til 18 ára aldurs en það setur rétti barna til að ráða málum sínum sjálf ákveðnar skorður. Þannig hafa foreldrar rétt og skyldu til þess að vernda barn sitt og veita því leiðsögn. Eftir því sem börn verða eldri er eðlilegt að réttur þeirra til friðhelgi einkalífs verði ríkari og unglingar eiga að hafa töluvert mikið um einkamál sín að segja.

Þar sem foreldrar þínir bera ábyrgð á því að vernda þig og tryggja að þér líði vel er eðlilegt að þau setji ákveðnar reglur um útivistartíma. Þeim ber þó einnig að hlusta á þig og taka tillit til skoðana þinna og óska. Þar sem þú ert orðinn 16 ára ætti þín skoðun að hafa mikið vægi.

Varðandi Facebook telur umboðsmaður barna almennt ekki eðlilegt að foreldrar geti bannað unglingum að eiga Facebook síðu, ef þeir eru orðnir 13 ára eða eldri (sem er aldurstakmarkið). Börn njóta tjáningarfrelsis, eins og fram kemur í 13. gr. Barnasáttmálans og 73. gr. stjórnarskrárinnar. Eiga unglingar því rétt á að tjá sig í gegnum netið ef þeir kjósa, svo lengi sem þeir brjóta ekki á réttindum annarra. Hins vegar bera foreldrar auðvitað ábyrgð á börnum sínum og eiga rétt á að fylgjast með því hversu mikið og hvernig þau nota netið. Þá geta foreldrar sett netnotkun barna sinna ákveðnar skorður ef þeir telja hana hafa skaðleg áhrif, t.d. þegar um er að ræða tölvufíkn, einelti o.s.frv.

Það er algengt að foreldrar eigi erfitt með að sætta sig við að börn þeirra vilji ákveðið frelsi til að lifa eigin lífi. Foreldrar þínir telja sig líklega vera að vernda þig og átta sig ekki á því hvaða áhrif þetta hefur á þig og þína líðan. Það getur því verið gott að ræða málin við foreldra þína og segja þeim hvernig þér líður.

Ef foreldrar þínir hlusta ekki á þig og samskiptin halda áfram að vera erfið getur verið gott að fá fjölskylduráðgjöf. Ef þú býrð í Reykjavík er hægt að fá slíka ráðgjöf ókeypis hjá Fjölskyldumiðstöðinni. Slík ráðgjöf er einnig í boði hjá félagsþjónustu einstakra sveitarfélaga. 

Endilega hafðu aftur samband ef þú ert með frekari spurningar. Þú getur sent tölvupóst á ub@barn.is, hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst) eða pantað tíma á skrifstofu embættisins.

Gangi þér vel!

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Fjölskylda