English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Fjölskylda

Neydd til að fermast

Systir mín er 13 ára og á að fara að fermast í vor.

Ég var neydd til að ferma mig af foreldrum mínum og vissum aðilum í fjölskyldunni. Ég vildi ferma mig borgaralega því ég er ekki kristinn, en foreldrar mínir sögðu að annað hvort fermdist ég í kirkju eða bara alls ekki. Svo fékk ég þulu hvað eftir annað hvað amma og afi yrðu vonsvikin og að ég yrði aldrei almenninlega hluti af samfélaginu.

Nú er verið að segja það sama við systir mína. Hún er sömu skoðunar um trú og ég. jafnaldrar segja við mig að þau geti ekki þvingað okkur svona, en hvaða lagalega rétt höfum við? Getum við ákveðið sjálf hvaða trúarlegu athöfn við tökum þátt í? Og þar með neytt foreldra okkar til að ganga á eftir okkur með það?

Sjálf get ég ekki sagt mig úr þjóðkirkjunni fyrr en ég er 16 ára, svo þegar maður er á fermingaraldri hefur maður engan rétt? Með fyrir fram þökk fyrir aðstoðina.

Komdu sæl 

Í fyrirspurn þinni til umboðsmanns barna spyrð þú hvort systir þín megi ákveða sjálf hvort hún fermist. 

Börn njóta skoðana- og trúfrelsis, sbr. 14. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Foreldrar barna eiga þó rétt til að veita barni leiðsögn í þeim efnum, í samræmi við aldur þeirra og þroska. 

Eins og þú nefnir þarf einstaklingur að vera orðinn 16 ára til þess að skrá sig úr trúfélagi, eins og fram kemur í lögum um skráð trúfélög. Þið systurnar getið því ekki skráð ykkur úr þjóðkirkjunni fyrr en við 16 ára aldur. Ef þið hafið áhuga á því ættuð þið þó endilega að ræða það við foreldra ykkar. Foreldrum ber hlusta á börnin sín og taka tillit til skoðana þeirra, eins og meðal annars kemur fram í 28. gr. barnalaga og 12. gr. Barnasáttmálans. 

Þó að systir þín sé skráð í þjóðkirkjuna ræður hún sjálf hvort hún fermist þar eða ekki, enda snýst ferming um að barn ákveði sjálft að staðfesta trú sína. Foreldrum ber því að virða trúfrelsi barna sinna og leyfa þeim sjálfum að ákveða hvort þau vilji fermast eða ekki. 

Þið getið sýnt foreldrum ykkar þetta svar ef þið viljið.

Ef þú ert með frekari spurningar er þér velkomið að hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer). 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Fjölskylda