English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 17 ára stelpa | Fjölskylda

Vil að pabbi fái forsjána

Má ég ráða hvort mamma eða pabbi (sem eru skilin) séu með forræði yfir mér? Mamma er með forræði en ég vil að pabbi fái það. Hversu langan tíma tekur það?

Komdu sæl

Það er foreldra þinna að semja um það hvernig forsjá þinni er háttað. Ef þeir geta ekki samið um forsjána er hægt að höfða mál fyrir dómstólum og ef sátt næst ekki um málið ákveður dómari hvort foreldranna fær forsjána.

Til að faðir þinn fái forsjána þarf hann því annað hvort að semja við móður þína að forsjáin færist yfir til hans eða fara í dómsmál og krefjast þess fyrir dómi að hann fái forsjána. Geri hann það á dómarinn að ræða við þig til að fá fram þinn vilja í málinu. Þar sem þú er orðin 17 ára ætti vilji þinn að hafa mikil áhrif á niðurstöðuna en dómarinn verður að meta stöðuna út frá því sem hann telur vera þér fyrir bestu.

Dómsmál geta tekið langan tíma og verið sársaukafull og kostnaðarsöm fyrir alla aðila þannig að það er yfirleitt best að reyna allt til að ná sáttum til að forðast dómsmál.

Foreldrar eiga að sjálfsögðu alltaf að haga málefnum barna sinna í samræmi við það sem er hverju barni fyrir bestu. Barnalög nr. 76/2003 fjalla um forsjá og ýmislegt henni tengdri. Þar segir í 6. málsgrein 28. greinar:

Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Eins og þú sérð þá eiga foreldrar að hlusta á og virða skoðanir barna sinna. Þar sem þú ert orðin 17 ára ættir þú að hafa töluverð áhrif á skipan forsjár þinnar þó að foreldrar þínir eigi samt alltaf lokaorðið. Þú ættir endilega að fá þau til að setjast niður með þér og ræða þessi mál. Kannski gæti verið gott að hafa einhvern annan fullorðinn sem þú treystir með þér. Í svona málum er líka oft gott að fá utanaðkomandi ráðgjöf, t.d. fjölskylduráðgjafa.

Svarið við spurningunni þinni er því: Nei, þú getur ekki ráðið hvort mamma þín eða pabbi fari með forsjá þína EN þú átt að hafa mikið um það að segja og þau eiga að hlusta á þínar óskir og taka tillit réttmætt tillit til þeirra.

Þér er velkomið að hafa samband aftur. Gangi þér vel. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

 

Flokkur: Fjölskylda