English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára stelpa | Fjölskylda

Fósturheimili

Ástæður til að geta fengið fósturheimili?

Komdu sæl

Í fyrirspurn þinni spyrð þú um ástæður til þess að geta fengið fósturheimilið. Þegar barn býr við slæmar aðstæður þarf barnavernd stundum að fela öðru fólki (fósturforeldrum) forsjá eða umsjá barns. Er þá ýmist um að ræða tímabundið eða varanlegt fóstur.

Ástæður þess að barn er sett í fóstur geta verið margar en algengast er að börnum sé komið í fóstur vegna félagslegra, sálrænna eða geðrænna erfiðleika foreldra, vímuefnaneyslu foreldra, veikinda eða vanrækslu. Einnig er börnum stundum komið í fóstur vegna andláts beggja foreldra ef enginn annar í fjölskyldunni getur tekið við þeim. 

Barnaverndarnefnd getur einnig ákveðið að koma barni í styrkt fóstur. Þá er mælt fyrir um sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í tiltekinn tíma og ríkið greiðir hluta kostnaðar vegna viðbótarþjónustu. Ástæður fyrir því að barni er komið í styrkt fóstur eru:

  • barnið á við verulega hegðunarerfiðleika að stríða vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála af því tagi,
  • veita þarf börnum móttöku í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika,
  • greina þarf vanda barna sem talin eru þurfa sérhæfða meðferð,
  • veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu eða meintra afbrota,
  • nauðsynlegt þykir að koma barninu í fóstur í stað þess að vista það á meðferðarheimili eða stofnun.

Barnaverndarnefnd í hverju sveitarfélagi tekur ákvörðun um það hvernig skuli bregðast við þegar barni líður ekki vel heima hjá sér eða á við einhvers konar erfiðleika að stríða. Best er að hafa samband við barnaverndarnefndina í þínu sveitarfélagi en lista yfir barnaverndarnefndir má sjá hér.

Einnig getur þú lesið meira um barnavernd hér á síðu umboðsmann barna.

Ef það vakna frekari spurningar eða þér finnst svarið ekki hafa svarað spurningu þinni er þér velkomið að hafa samband aftur. Þú getur sent inn aðra fyrirspurn, sent okkur tölvupóst eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst). 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna 

Flokkur: Fjölskylda