English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára strákur | Vímuefni

Áfengi og aldurstakmörk

Af hverju má ég ekki drekka fyrir 18 ára aldur?

Komdu sæll

Þú ert eitthvað aðeins að ruglast. Þú mátt ekki drekka áfengi fyrr en þú ert orðinn 20 ára! Í áfengislögum nr. 75/1998 segir m.a. í 18. gr:

Óheimilt er að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára.

Ástæðurnar fyrir því að sala áfengis er takmörkuð á þennan hátt eru nokkrar:

Það hefur margar slæmar og hættulegar afleiðingar að drekka of mikið af áfengi:
• Slys - um helmingur banaslysa í umferðinni og um þriðjungur drukknana er vegna ölvunar.
• Sjálfsvíg  - um þriðjung þeirra má rekja til ölvunar.
• Afbrot - stóran hluta afbrota má rekja til ölvunar.
• Ofbeldi af öllu tagi má rekja til ölvunar.
• Morð - helmingur morða eru framin undir áhrifum áfengis.
• Fósturskemmdir - ef drukkið er á meðgöngu getur fóstrið skaðast.
• Heilsutjón - lifrin, heilinn og taugakerfið skemmast.
• Vinnutap og vinnuslys eru oft vegna áfengisneyslu.
• Lakari námsárangur. Áfengisneysla unglinga getur leitt til þess að þeir muna allt að tíu sinnum minna af því sem þeir eru að læra.

Þetta er tekið úr bæklingnum Hvað veistu um áfengi?  Í bæklingnum finnur þú meiri fróðleik um áfengi.

Heilinn nær ekki fullum þroska fyrr en eftir 20 ára aldur. Eftir því sem unglingar eru yngri þegar þeir byrja að drekka áfengi því skaðlegri verða afleiðingar áfengisneyslunnar og því lengur sem unglingar sniðganga áfengi því ólíklegra er að þeir ánetjist fíkniefnum. Þess vegna er talað um að hvert ár skipti  máli.

Kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Vímuefni