English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 15 ára strákur | Ýmislegt

Útivistartími

Ég veit að útivistartíminn segir að ég verði að vera kominn inn klukkan 22 á þessum tíma árs en hvernær má ég fara út aftur? Ég er að bera út Fréttablaðið og tek oft þrjú auka svæði og þá þarf ég að byrja um fimm leytið á nóttunni. Er það í lagi?

 Komdu sæll

Markmiðið með útivistartímanum er fyrst og fremst að tryggja að börn og unglingar séu ekki úti seint á kvöldin og á nóttunni, enda getur það verið hættulegt. Þótt það komi ekki beinlínis fram í lögunum hvenær að morgni börn mega fara aftur út hefur almennt verið miðað við almennan fótferðartíma.  Er því  a.m.k. ekki ætlast til þess að börn séu ein á ferð fyrir klukkan 6 á morgnana. Það er því ekki æskilegt að þú farir einn að bera út blöð klukkan 5.

Markmið útivistartímans er einnig að tryggja að börn fái nægilegan svefn. Ef þér finnst of mikið álag að bera út á 3 svæðum skaltu endilega íhuga að minnka við þig, enda er nám full vinna. Það skiptir mestu máli að þú fáir góða hvíld og hafir orku til þess að sinna skólanum.

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga eru reglur um vinnu barna og unglinga. Þær er að finna í lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum og reglugerð um vinnu barna og unglinga. Samkvæmt þessum reglum mega börn, alveg sama á hvaða aldri, ekki vinna fyrir klukkan 6 á morgnana nema í undantekningartilfellum. Hérna sérðu reglurnar en það er hægt að hringja í Vinnueftirlitið til að spyrja nánar út í undanþágur.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna.

Flokkur: Ýmislegt