English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Framkoma starfsfólks skóla

Hæhæ...
Er leyfilegt að skólaliði eða gangavörður kalli mann eða vinkonur sínar ,,Óþroskaða belju'' ef maður er lengi að klæða sig og koma sér út?

Hvað á ég að gera næst þegur hún kallar mig eða vini mína þetta næst?

Komdu sæl og þakka þér fyrir að leita til umboðsmanns barna. 

Allir grunnskólar og starfsfólk þeirra eiga að starfa í samræmi við grunnskólalög nr. 91/2008. Í grunnskólalögum segir m.a. í 12. gr. sem fjallar um starfsfólk grunnskóla:

Starfsfólk grunnskóla skal rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki.

Nemendur bera líka ábyrgð eins og fram kemur í 14. gr. grunnskólalaga en þar segir m.a.:

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

Samkvæmt þessu eiga starfsmenn skólans að sýna börnum kurteisi og nærgætni og nemendum eiga að hlíta fyrrimælum kennara og starfsfólks skólans í öllu því sem skólann varðar. 

Það telst ekki til kurteisi að kalla nemendur óþroskaða belju og því mega kennarar og starfsfólk ekki koma fram við nemendur með þessum hætti.  Hafi gangavörður eða skólaliði verið ókurteis við þig og kallað þig ljótum nöfnum vill umboðsmaður barna leiðbeina þér um að tala við foreldra þína um þetta.

Það er mikilvægt að þú segir frá þessu og gerir athugasemd við framkomu starfsfólks skólans ef það er að þínu mati að sína þér ókurteisi. Þú getur einnig talað við umsjónarkennarann þinn eða námsráðgjafa í skólanum. Starfsfólk skólans á að sjá til þess að öllum líði vel í skólanum.  En það þurfa allir að hjálpast að og þess vegna er mjög mikilvægt að nemendur bendi kennurum og öðru starfsfólki skólans á það sem miður fer. 

Gangi þér vel. 

Kær kveðja frá skrifstofu umboðsmanns barna

 

 

Flokkur: Skóli