English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára stelpa | Skóli

Einelti í skóla

Ég er 13 ára stelpa og ég hef orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi af bæði kennurum og nemendum, í tveimur skólum.

Ég var núna að breyta um skóla (þegar að þetta skólaár byrjaði) og mér líkaði mjög vel fyrst en núna er aðeins farið að breytast. Ég er ekki beint lögð í einelti en það er eins og það sé ekkert tekið eftir mér í skólanum mínum... þegar að það eru tímar er ég alltaf ein útí horni og allar hinar stelpurnar í einum hóp,  Ég á reyndar eina mjög góða vinkonu í bekknum en hún er oft í námsverinu svo að ég hitti hana sjaldan... síðan eru líka 4 stelpur í hinum bekknum (samt í sama árgangi) sem að eru vinkonur mínar en ein þó aðalega ég veit ekki hvað ég get gert ég hitti þær aldrei nema í gati og matarhléum og síðan bara búið ekkert meir og ef ég reyni að koma mér innaní hópinn í mínum bekk þá fer alltaf allt í steik og klessu bara allir labba í burtu og ég vil ekki að ég verði lögð í einelti aftur og langar að stoppa það í byrjun.

Ég fer til námsráðgjafans einu sinni í viku en ég þori ekki að segja henni neitt um þetta og ekki þori ég að tala við mömmu eða kennarann vegna þess að ég er hrædd um að mamma reyni að tala við kennarann og að hann geri ekki neitt eins og í hinum gömlu skólunum mínum..

og svo er eitt enn get ég kært kennarann minn (gamla kennarann minn) fyrir það að hlusta ekki á mig og að ég var lamin af krökkunum og það var ekkert gert og hún í rauninni tók bara þátt í eineltinu.. hvað get ég gert mig vantar ráð takk fyrir.

Komdu sæl. 

Það er mjög gott hjá þér að leita til umboðsmanns barna.  Það er leitt að heyra að þú hafir verið lögð í einelti í tveimur skólum.  Eins og þú sjálfsagt veist þá getur það reynist sumum erfitt að byrja í nýjum skóla eða nýjum bekk, kynnast nýju fólki og mynda ný vinasambönd.  Það getur líka verið erfitt fyrir aðra þegar nýtt fólk kemur inn í bekk eða hóp þar sem allir þekkjast orðið mjög vel og eru jafnvel orðnir „vanir“ hvor öðrum. Það getur því verið að krakkarnir séu sjálf mjög óörugg og feimin við þig og vita hreint ekki hvernig á að bregðast við þegar nýr aðili kemur inn í hópinn. Þau gera sér kannski ekki grein fyrir því að hegðun þeirra valdi þér vanlíðan.

Einelti og útilokun á að sjálfsögðu aldrei að líðast og því er mikilvægt að takast á við málin sem fyrst með því að láta vita. Svo er hægt að reyna að bæta bekkjarbraginn. 

Þú segir í bréfinu að þú viljir ekki ræða um þetta við námsráðgjafann eða foreldra þína af ótta við að þú verðir lögð aftur í einelti.  Það er gott fyrir þig að vita að engir tveir skólar eru eins og þeir takast mismunandi á við ef vart verður við einelti í skólanum. Hlutverk námsráðgjafa er að standa vörð um velferð nemenda á sem breiðustum vettvangi. Námsráðgjöfum er ætlað að starfa í þágu nemenda, leita lausna í málum þeirra og gæta þess að nemendur búi við jafnrétti og að réttlætis sé gætt gagnvart þeim innan skólans.  Þú ættir því að treysta námsráðgjafanum að hann geri sitt besta til að aðstoða þig á þann hátt að þú upplifir ekki einelti á nýjan leik.  Námsráðgjafinn og umsjónarkennarinn gætu ef til vill líka hjálpað til við að bekkurinn sé ekki eins óöruggur í kringum þig, eins og hann er ef til vill nú.

Þú skalt líka endilega ræða þetta við foreldra þína og gerðu þeim grein fyrir því hvernig þér líður. Yfirleitt gera foreldrar alltaf sitt besta til að hjálpa börnunum sínum. Þú skalt því treysta þeim til að styðja þig eins og þér hentar best. 

Til að takast á við feimnina og til að kynnast nýju fólki hefur það hjálpað sumum að taka þátt í hvers konar tómstundastarfsemi, eins og t.d. að vera í skátunum, tónlist, dansi, íþróttum og fleira.  Ef þú hefur áhuga á einhverju slíku getur mamma þín, pabbi eða kennarinn þinn hjálpað þér að  finna út hvað hentar þér. 

Gangi þér vel.

Kær kveðja frá  umboðsmanns barna


 

Flokkur: Skóli