English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 16 ára stelpa | Skóli

Ein og líður illa í nýjum skóla

Ég er í framhaldsskóla og mér líður ömurlega í honum ég á enga vini í skólanum útaf ég er svo feimin þannig ég ákvað að byrja í leiklistinni en ég var svo feimin í því þannig eg hætti bara ég er að missa sjálftraustið mitt ég er samt alltaf hress með vinum minum en engin af vinum minum eru í skólanum mínum

sé rosa eftir að hafa farið í þennan skóla ég vil helst ekki mæta lengur og það munar svo litlu að ég verði rekin úr honum. Ég þoli virkilega ekki þennan skóla ég vil helst fara í skóla með vinum mínum hvað get ég gert og hvað ef ég fell á mætingu og get ekki skipt um skóla ég bara get ekki verið í aðra önn í þessum skóla.

Komdu sæl. 

Það er ekki auðvelt að byrja í nýjum skóla og sérstaklega ekki þegar vinirnir eru fjarri. Þú ert mjög meðvituð um það hve feimin þú ert og hefur gert ýmislegt til að sigrast á feimninni og kynnast fólki eins og að taka þátt í leiklistinni.  Eins og þú sjálf veist þá getur það verið ágæt leið til að kynnast öðrum nemendum í gegnum hvers kyns tómstundastarfsemi í skólanum, hvort sem það er leikfélag, kór eða annað.  Þó svo að leiklistin hafi ef til vill ekki hentað þér þá skalt þú samt ekki láta deigan síga, það eru eflaust margt annað í boði, en þú þarft að bera þig dálítið eftir því. 

Það er mjög eðlilegt að sjálfstraustið sé ekki mikið við þessar aðstæður en það er hægt að bæta það. Sumir hafa náð góðum árangri í að bæta sjálfstraustið með því að láta sig hafa það að gera það sem þeir myndu í raun heldur vilja sleppa við, eins og t.d. að setjast hjá einhverjum sem maður þekkir ekki og byrja að spjalla. Þú getur verið viss um það að það eru fullt af öðrum krökkum í sömu sporum og þú, þ.e. þekkja fáa í skólanum og finnst erfitt að brjóta ísinn.

Það getur krafist nokkurra vinnu að efla sjálfstraust þitt.  Segðu t.d. við sjálfan þig upphátt á hverjum degi að þetta eigi eftir að verða frábær dagur og að þú sért flott og klár og getir tekist á við daginn og þau verkefni sem hann kemur með.  Þetta hljómar eflaust skrítið en þetta hefur hjálpað sumu fólki.  Ræddu endilega við foreldra þína um þessi mál líka, yfirleitt gera foreldrar alltaf sitt besta til að hjálpa börnunum sínum þegar eitthvað bjátar á.  Þess vegna skalt þú endilega treysta þeim til að styðja þig eins og þér hentar best.

Varðandi það að skipta um skóla þá er besta leiðin fyrir þig að klára þetta skólaár í núverandi skóla. Ef til vill dugar að vera út þessa önn en það er best fyrir þig að hafa samband við námsráðgjafann í skólanum og ræða við hann um þessi mál. Hann getur bent þér á þær leiðir sem eru færar fyrir þig.  Einnig getur umsjónakennarinn þinn leiðbeint þér. 

Umboðsmaður vill einnig benda þér á Áttavitann / Tótalráðgjöf en þar getur ungt fólk leitað eftir ráðgjöfum um næstum hvað sem er.  Þeir sem þar svara eru með fjölbreytta menntun og þekkingu, eins og sálfræði- og félagsráðgjafamenntun.

Vonandi svarar þetta fyrirspurn þinni.  Gangi þér vel. 

Kær kveðja frá umboðsmanni barna 

Flokkur: Skóli