English Danish Russian Thai Polish

Spurt og svarað

| 13 ára strákur | Skóli

Heimakennsla

Er hægt að fá heimakennslu án þess að maður er fatlaður eða með aðra sjúkdóma? Það er að segja af foreldrum eða einkakennara? (Af foreldrum ef þau hafa kennsluréttindi.)

Komdu sæll

Meginreglan er að öll börn eru skólaskyld. Hægt er að sækja um undanþágu frá skólaskyldu, t.d. ef barn sækir einkaskóla, skólasel eða sérskóla.

Ef ekkert alvarlegt amar að þá hafa krakkar ýmislegt annað að græða á skólagöngu en að læra námsefnið. Sem dæmi má nefna félagsskapinn, tómstundastarfið, vináttu og þjálfun í samskiptum. Skólinn er samfélag þar sem börn læra að til er meira en þau þekkja heima hjá sér.

Foreldrar, sem óska eftir að kenna börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti, skulu sækja um slíka heimild til síns sveitarfélags. Skólastjóri getur veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og sérfræðiþjónustu í samræmi við reglugerð um skilyrði til heimakennslu á grunnskólastigi.

Í menntamálaráðuneytinu er til vinnureglur sem sveitarstjórnir eiga að fara eftir þegar foreldrar sækja um undanþágu frá skólaskyldu fyrir hönd barna sinna til að kenna þeim sjálfir heima. Foreldrarnir verða að hafa kennsluréttindi í grunnskóla og leggja fram ýmis gögn um menntun og starfsferil, lýsingu á stefnu, starfsháttum og markmiðum kennslunnar með námskrá um heimakennslu og áætlun um með hvaða hætti félags- og tómstundastarfi barnanna verði háttað. Úttekt er gerð á aðstæðum á heimilinu m.t.t. fyrirhugaðrar heimakennslu. Sveitarstjórn semur við ákveðinn grunnskóla í sveitarfélaginu sem annast þjónustu, ráðgjöf og eftirlit vegna heimakennslunnar og formleg tengsl við heimilið. Menntamálaráðuneytið gefur leyfi til heimakennslu að hámarki til tveggja ára í senn.

Kær kveðja frá umboðsmanni barna

Flokkur: Skóli